Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur kallað eftir því að stjórnvöld í Bandaríkjunum falli án tafar frá ákvörðun sinni um að vopna bardagasveitir Kúrda í Sýrlandi. Stjórnvöld í Ankara flokka sveitirnar sem hryðjuverkahópa.
„Ég vona einlæglega að þessum mistökum verði snúið umsvifalaust,“ sagði Erdogan í kjölfar þess að yfirvöld í Washington tilkynntu að þau hygðust vopna svokallaðar Verndarsveitir Kúrda (YPG) í baráttunni gegn jíhadistum í Sýrlandi.
Erdogan hét því að ræða málið við Donald Trump Bandaríkjaforseta þegar leiðtogarnir hittast í fyrsta sinn í Washington 16. maí nk.
„Ég mun persónulega tjá ítarlega áhyggjur okkar þegar við ræðum við Trump forseta 16. maí,“ sagði Erdogan. Þá yrði málið einnig rætt á ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins í Brussel 25. maí.
„Við kjósum að trúa því að bandamenn okkar vilji frekar standa við hlið okkar en við hlið hryðjuverkasamtaka,“ bætti Erdogan við og sagði hvaðeina sem gerðist í Sýrlandi og Írak varða þjóðaröryggi Tyrklands.