Þorgerður Katrín: „Mikil vonbrigði“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, ræðir málin við Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, ræðir málin við Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

„Þetta eru nátt­úru­lega mik­il von­brigði, að þetta skuli fara svona. En um leið þá bind ég von­ir við það að menn leysi úr þessu í sam­ein­ingu og að allt sé gert til að tryggja því fólki at­vinnu, sem stend­ur nú frammi fyr­ir því að missa vinn­una.“

Þetta seg­ir Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, í kjöl­far til­kynn­ing­ar HB Granda um að fyr­ir­tækið muni segja upp 86 starfs­mönn­um þess á Akra­nesi um næstu mánaðamót.

Hún seg­ir að um­rædd­ir starfs­menn hafi yfir að búa gríðarlega mik­illi þekk­ingu og reynslu, ekki síst á sviði sjáv­ar­út­vegs.

„Það eru því mik­il verðmæti fólg­in í að reyna að tryggja að starfs­kraft­ar þeirra verði nýtt­ir. Miðað við hvernig Skag­inn er að þró­ast þá sé ég fram á að þar geti verið sókn­ar­færi í ýms­um grein­um og inn­an sjáv­ar­út­vegs­ins líka. Sér­stak­lega ef menn þrýsta á Faxa­flóa­hafn­ir um að halda áfram lag­fær­ing­um við höfn­ina,“ seg­ir Þor­gerður í sam­tali við mbl.is.

Hagræðing mik­il­væg

„Þá sé ég ekki annað, þegar menn hafa yfir þess­um mannauð að ráða, og þegar litið er til þess að menn­ing­ar­leg­ar ræt­ur Skag­ans liggja í sjáv­ar­út­vegi, en að það verði önn­ur fyr­ir­tæki sem komi og sæki í þessi verðmæti sem þarna eru.“

Hagræðing í sjáv­ar­út­vegi sé þó af hinu góða.

„Það er mik­il­vægt að hún eigi sér stað og að byggður sé upp sterk­ur sjáv­ar­út­veg­ur. Við höf­um náð að fjár­festa enn frek­ar í grein­inni en meg­um hins veg­ar ekki gleyma að höfða til sam­fé­lags­legr­ar ábyrgðar fyr­ir­tækja, með til­liti til ákvæða laga um stjórn fisk­veiða.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina