Fjárfesting og tækniþróun lykilþættir

Kaldbakur EA á heimleið.
Kaldbakur EA á heimleið.

„Áframhaldandi fjárfesting og tækniþróun eru lykilþættir í framleiðniaukningu sjávarútvegs og samkeppnishæfni greinarinnar. Sterkt gengi íslensku krónunnar til langframa getur orðið verulegur þröskuldur fyrir áframhaldandi tækniþróun. Mikilvægt er að hafa burðug hátæknifyrirtæki hér innanlands sem hafa þekkingu og fjármagn til að vera leiðandi í framþróun og tækni í sjávarútvegi.“

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Aton vann fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Yfirskrift hennar er „Næsta bylting í sjávarútvegi. Tækniframfarir og sjálfvirkni í sjávarútvegi – áskoranir og tækifæri“. Skýrslan var kynnt á fjölsóttum morgunverðarfundi á þriðjudag, en þar gerði Huginn Freyr Þorsteinsson, ráðgjafi hjá Aton og doktor í vísindaheimspeki, grein fyrir helst þáttum í skýrslunni, en hann er aðalhöfundur hennar.

Fjölmörg sóknarfæri felast í tæknibyltingunni

„Þegar kemur að umfangsmiklum breytingum af völdum tækni hættir fólki til að draga upp of dökka eða of jákvæða mynd af mætti tæknibreytinga. Það er enginn vafi á því að sú tæknibreyting sem er framundan verður alveg gríðarlega umfangsmikil fyrir Ísland sem og hagkerfi heimsins en það er verkefni stjórnmálamanna, atvinnulífs og opinberra stofnana að átta sig á áskorunum og ógnunum. Fjölmörg sóknarfæri felast í þeirri tæknibyltingu sem nú á sér stað í íslenskum sjávarútvegi ef rétt er á málum haldið.

Íslenskur sjávarútvegur stendur framarlega þegar kemur að því að þróa hátæknilausnir sem nýtast í sjávarútvegi og í sumum tilfellum er hægt að yfirfæra á önnur svið í matvælaiðnaði. Þekkingin sem hefur byggst upp í þessum efnum þýðir að Íslendingar verða gerendur í þessari tæknibyltingu í stað þess að þiggja lausnir frá öðrum eins og vafalaust verður á mörgum öðrum sviðum atvinnulífsins. Sé rétt á málum haldið eru því frekari forsendur til vaxtar fyrir íslenskan sjávarútveg en með breyttu sniði frá því sem höfum áður séð.“

Fleiri störf og aukin útflutningsverðmæti

Störf munu aukast í hátækniiðnaði við þróun lausna og aukin útflutningsverðmæti verða til við sölu á þeim lausnum. Tryggja þarf að fólk í vinnslu sjávarafurða geti sérhæft sig í að nýta tæknina í sinni vinnu. Þetta mun einnig þýða betri nýtingu afurða, enn meiri vöruþróun og frekari virðisauka. Þá felast tækifæri með nýrri tækni í að gera sjávarútveginn enn umhverfisvænni með minni losun gróðurhúsaloftegunda.

Fram kemur í skýrslunni að stjórnvöld og fyrirtæki í sjávarútvegi þurfi að huga að starfsemi sinni vítt og breitt um landið. Tækniþróunin þurfi líka að eiga sér stað úti á landi. Með þessu er átt við að tæknifyrirtæki byggist upp nálægt starfsstöðvum sjávarútvegsfyrirtækja. Til að svo megi verða sé hins vegar mikilvægt að fullnægjandi innviðir séu til staðar á hlutaðeigandi svæðum þannig að þekkingariðnaður fái þar þrifist.

Í skýrslunni segir að íslenskur sjávarútvegur eigi allt undir skilyrðum hafsins og góð umgengni við hafið sé forsenda þess að fiskistofnar verði áfram til staðar og nýtanlegir komandi kynslóðum. Í skýrslunni er lögð áhersla á að tæknibreytingin, sem skili því að færri hendur vinni í fiskvinnslu þrátt fyrir aukna verðmætasköpun, kalli á störf í öðrum geirum. Starfsmenn í hátækniiðnaði sem þrói lausnir fyrir sjávarútveg standi ekki fyrir utan sjávarútveginn og því sé villandi að horfa eingöngu til starfa í fiskveiðum og fiskvinnslu. Fólkið í þessum störfum sé hluti af þeim hátæknilega sjávarútvegi sem þróaður hafi verið hér innanlands.

Fiskistofnar við Ísland séu fullnýttir og því sé lykilatriði til þess að auka tekjur í sjávarútvegi að nýjungar í vinnslu skili hærra verði á mörkuðum og aðgangi að nýjum mörkuðum. Á þessu ári hafi styrking krónunnar gert útflutningsgreinum erfitt fyrir en í sjávarútvegi hafi verð afurða í erlendri mynt haldist hátt sem vegi eitthvað á móti gengisbreytingum.

Huginn Freyr Þorsteinsson.
Huginn Freyr Þorsteinsson.

Fjárfest í skipum fyrir 35 milljarða

Í skýrslunni segir að á árunum 2014 og 2015 hafi verið metár í fjárfestingu í sjávarútvegi enda skuldastaða sjávarútvegsfyrirtækja orðin betri eftir erfið ár frá hruni. Á árunum 2015-2017 hafi komið eða muni koma tólf ný stór fiskiskip til landsins og samanlögð fjárfesting í þeim sé a.m.k. 35 milljarðar króna.

Mikil hagræðing hafi átt sér stað í sjávarútvegi, en slík þróun sé sjaldnast sársaukalaus þar sem það þýði að einhver fyrirtæki hafi þurft að leggja upp laupana. Sú mikla offjárfesting sem orðið hafði í geiranum, bæði í veiðum og vinnslu árin fyrir tilkomu kvótakerfisins hafði hins vegar skapað ofvaxinn sjávarútveg sem ekki hafi verið rekinn með arðsemissjónamrið í huga. Vinda hafi þurft ofan af þeirri þróun.

Nú sé staðan sú að sjávarútvegurinn skili umtalsverðum fjármunum til samfélagsins, í formi útflutningstekna, launatengdra gjalda, veiðigjalda og ekki síst þess iðnaðar sem í kringum hann hafi skapast. Auk þess skili sjávarútvegurinn eigendum fyrirtækja í greininni arði.

Hlutfallslega hafi dregið úr mikilvægi sjávarútvegsins fyrir hagkerfið, einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar að hagkerfið er nú fjölbreyttara og efnahagurinn hvíli á fleiri stoðum en áður.

Í öðrum ríkjum OECD nýtur sjávarútvegur ríkisstyrkja

Sjávarútvegurinn sé engu að síður ein af styrkustu stoðum íslensks efnahagslífs og á árunum 2009-2016 hafi sjávarútvegsfyrirtæki greitt vel á annað hundrað milljarða króna í opinber gjöld og árið 2015 hafi þau skapað 42% af öllum útflutningsverðmætum íslensku þjóðarinnar.

„Íslenskur sjávarútvegur er í þeirri stöðu að greiða til samfélagsins. Í öllum öðrum ríkjum OECD nýtur sjávarútvegur ríkisstyrkja, eins og landbúnaður. Slík staða er ekki sjálfsögð, eins og sagan sýnir. Hún gefur hins vegar færi á því að fara í enn meiri fjárfestingar í átt til umhverfisvænni veiða og vinnslu,“ segir í skýrslu Aton.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: