1318 börn á Íslandi hafa búið við heimilisofbeldi á síðustu tveimur árum og í 9 prósent tilfella er um að ræða ofbeldi foreldris gegn barni. í 7 prósent tilfella var um að ræða ofbeldi foreldris gegn ólögráða einstaklingi. Það eru tæplega 100 ofbeldismál, þar sem 126 börn eru brotaþolar.
Börn tilkynna sjálf um ofbeldið í þriðjungi tilfella. Þetta kom fram í máli Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðallögfræðings lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á opnum fundi um börn og ofbeldi sem stendur yfir í ráðhúsinu.
Alda vakti jafnframt athygli á þeirri staðreynd að frá árinu 2003 hafi 22 manndrápsmál komið upp á Íslandi. 12 af þeim málum voru flokkuð sem heimilisofbeldi, eða 55 prósent. Í 4 málum voru börn sem áttu í hlut.
Heimilisofbeldismálum hefur fjölgað inni á borði hjá lögreglu á síðustu tveimur árum, og má ástæðuna að einhverju leyti rekja til breyttrar skráningar málanna í kerfinu í kjölfar átaks í þessum málaflokki sem hófst árið 2014. Í apríl á síðasta ári fór svo af stað átak hjá lögreglu þar sem brot gegn börnum og brot á barnaverndarlögum eru greind sérstaklega. Síðan þá hefur orðið veruleg fjölgun mála þar sem um er að ræða brot gegn börnum, en á síðasta ári komu 195 tilfelli inn á borð hjá lögreglu, miðað við 93 árið áður. Það sem er af þessu ári eru tilfellin orðin 64.
Konur eru gerendur í 40 prósent mála þar sem um er að ræða brot gegn börnunum, en það er mun hærra hlutfall en almennt í heimilisofbeldismálum. 34 prósent barna sem verða fyrir ofbeldi af hálfu foreldris eru af erlendum uppruna, en Alda segir forelda af erlendumn uppruna oft þurfa sérstakan stuðning varðani uppeldi og úrræði.
Ofbeldi hefur margvísleg líffræðileg áhrif á börn, en Alda bendir meðal annars á að það geti hamlað þroska framheila þeirra, fyrir utan þau áhrif sem það hefur á líðan.
Þá kom fram í máli Sigþrúðar Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Samtaka um kvennaathvarf, að bæði þolendur og gerendur heimilisofbeldis hefðu tilhneigingu til að vanmeta líðan barna sem yrðu fyrir heimilisofbeldi. Hún sagði jafnframt að það væri ekki marktækur munur á líðan þeirra barna sem verða fyrir sjálf fyrir ofbeldi og þeirra sem verða vitni að ofbeldi. Það geti haft sömu áhrif á barn að sjá foreldra beita hvort annað ofbeldi, sjá afleiðingar ofbeldis í formi brotinna húsganga eða áverka og upplifa ótta á heimilinu, og að finna fyrir ofbeldinu á eigin skinni.