Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að milda skuli fangelsisdóm yfir manni sem sakfelldur var í héraði fyrir að nauðga 16 ára stúlku á gistiheimili í Reykjavík.
Maðurinn hlaut þriggja ára fangelsisdóm í héraði í lok janúar en Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að maðurinn skuli sæta tveggja ára óskilorðsbundnu fangelsi. Dómur héraðsdóms helst að öðru leyti óraskaður. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til aðdraganda brotsins og þess hve ungur maðurinn var að árum er brotið var framið.
Í dómi Hæstaréttar er vísað í úrskurð kærunefndar útlendingamála þar sem fram kemur að maðurinn hafi komið hingað til lands í byrjun janúar 2016 án þess að vera í fylgd forráðamanns og hafi því staðið höllum fæti félagslega. Þá hafi brotaþoli borið það fyrir dómi að hún og ákærði hafi tvívegis haft samfarir með samþykki hennar fyrr um kvöldið, áður en hann braut gegn henni á þann hátt sem greint er frá í ákæru. Maðurinn, sem sjálfur var 17 ára þegar brotið var framið, neitaði sök fyrir rétti.
Brotið framdi maðurinn, sem hafði sótt um hæli á Íslandi en fengið synjun, í mars í fyrra. Samkvæmt ákæru beitti hann stúlkuna ólögmætri nauðung til þess að hafa við hana samræði og önnur kynferðismök en hann nuddaði kynfæri hennar og lagðist síðan ofan á hana og hafði við hana samræði, þrátt fyrir að hún hefði sagt honum að hún vildi það ekki og beðið hann um að hætta.
Stúlkan lagði fram formlega kæru á hendur manninum í byrjun apríl 2016 en þar kom fram að hún hafi kynnst honum þegar hann spurði hana til vegar í strætisvagni. Þau hafi skipst á símanúmerum og í framhaldi farið að tala saman á Facebook. Þau hafi nokkru síðar mælt sér mót og farið saman á gistiheimili.
Í herbergi á gistiheimilinu umrætt kvöld hafi þau í tvígang haft samræði. Stúlkan hafi farið á snyrtinguna og er hún hafi komið til baka hafi hann viljað hafa samræði við hana í þriðja skiptið. Það hafi hún ekki viljað og gert honum grein fyrir því. Þrátt fyrir það hafi hann nuddað kynfæri hennar og þvingað hana til samræðis. Við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi breyttist frásögn mannsins ítrekað og var framburður hans ekki talinn trúverðugur.
Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í héraði til að sæta þriggja ára fangelsi. Þeim dómi var í febrúar áfríað til Hæstaréttar sem kemst að þeirri niðurstöðu að maðurinn skuli sæta tveggja ára fangelsi, óskilorðsbundið. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til aðdraganda brotsins og þess að maðurinn var tæplega 17 ára gamall þegar hann framdi brotið.