Pandahúnn fékk bréfin til að hækka

Pandan Shin Shin eignaðist hún á dögunum.
Pandan Shin Shin eignaðist hún á dögunum. AFP

Ueno dýrag­arður­inn í Tókýó greindi frá því í morg­un að panda­björn­inn Shin Shin væri orðin létt­ari og hafi fætt að minnsta kosti einn hún. Þetta er fyrsti panda­húnn til þess að fæðast í garðinum í fimm ár.

Fæðing­in hef­ur ekki aðeins haft já­kvæð áhrif á stöðu panda­bjarna í heim­in­um held­ur einnig á fyr­ir­tæki í ná­grenni við dýrag­arðinn.

Veit­inga­húsa­keðjurn­ar Toten­ko og Seiyoken eru báðar með úti­bú skammt frá dýrag­arðinum. Hluta­bréf í Toten­ko hækkuðu um allt að 38%  og stóðu 6,7% hærri í lok dags. Hluta­bréf Seiyoken hækkuðu mest um 11,3% í dag og var hækk­un­in alls 6,5% í lok dags.

CNN seg­ir frá. 

Reynd­ar hafa hluta­bréf fyr­ir­tækj­anna tveggja verið á upp­leið allt frá því að fregn­ir bár­ust af því í fe­brú­ar að til stæði að Shin Shin og karlp­and­an Ri Ri myndu mak­ast. Hluta­bréf Toten­ko hafa hækkað um 30% síðan þá og Seiyoken um 21%.

Shin Shin eignaðist hún árið 2012 en hann lést vikugam­all. Hún og fyrr­nefnd­ur Ri Ri komu til Tókíó árið 2011 en þau eru fædd í Kína. Þeim var tekið gríðarlega vel og voru göt­ur Tókýó skreytt­ar með mynd­um af þeim þegar þær komu til borg­ar­inn­ar.

Ueno dýrag­arður­inn greiðir því sem nem­ur 950.000 Banda­ríkja­döl­um eða tæp­ar 94 millj­ón­ir króna á ári fyr­ir að leigja pönd­urn­ar. Samn­ing­ur­inn var gerður til tíu ára en pen­ing­un­um er varið í að styðja við vernd­un villtra dýra í Kína.

En það er ljóst að pönd­urn­ar hafa já­kvæð áhrif á jap­ansk­an ferðamannaiðnað. CNN vitn­ar í eina grein­ingu þar sem seg­ir að áhrif nýju pönd­unn­ar á efna­hag lands­ins gæti orðið allt að 26,7 millj­arðar jena eða því sem nem­ur 24 millj­örðum ís­lenskra króna.

Hægt er að sjá hún Shin Shin koma í heim­inn á mynd­band­inu hér að neðan.

mbl.is