Icelandic Fish and Chips er vinsæll fiskistaður við Tryggvagötu sem selur „fish and chips“ eða fisk og franskar sem minna á hin vinsæla breska rétt. Veitingakonan Erna Kaaber rekur veitingastaðinn ásamt mági sínum, Ólafi F. Sigurðssyni.
25. júní næstkomandi opnar staðurinn sitt annað útibú og það í New York við sjöunda stræti í Manhattan. Vefsíðan foodandwine.com fagnar þessum fréttum og segir fiskinn frá veitingahúsinu vera stórgóðan og ógni í raun hinum hefðbundnu bresku veitingastöðum allsvakalega.
Í greininni er gerð úttekt á muninum á íslenskum djúpsteiktum fiski og frönskum og þeim upprunalega frá Bretlandi. Helst má nefna að íslenska útgáfan innheldur íslenskan fisk og deigið inniheldur spelt sem verður fyrir vikið léttara. Einnig er deigið laust við áfengi en Bretar setja gjarnan bjór í deigið. Í greininni er þó tekið fram að gott sé að drekka bjór með herlegheitunum. Íslensku kartöflurnar eru svo lífrænar og ofnbakaðar en ekki djúpsteiktar líkt og í Bretlandi. Því er um að ræða hollari útgáfu af réttinum vinsæla. Síðast en ekki síst býður Icelandi Fish and Chips upp á skyronnese sem er sósa gerð úr skyri, olíu og kryddum en sósan er ákaflega vinsæl. Spennandi verður að sjá hvernig New York tekur á móti fyrsta íslenska fiskistaðnum.
Hér má lesa greinina í heild sinni.
Fyrir áhugasama má finna veitingahúsið við þetta heimilisfang:
28 7th Ave South
NEW YORK, NY 10014