Bæjarstjóri sem sleikir borgara sína

Brynn háði heiðarlega kosningabaráttu.
Brynn háði heiðarlega kosningabaráttu.

Brynn­eth Pawltro, ný­kjör­inn bæj­ar­stjóri í smá­bæn­um Rabbit Hash í Kentucky, hef­ur fal­legt bros og er sér­lega viðkunn­an­leg. Hún sleik­ir líka þá sem hún hitt­ir.

Brynn­eth, eða Brynn eins og hún er kölluð, er þriggja ára göm­ul tík af Pitt­bull-kyni. Hún er fjórði bæj­ar­stjóri Rabbit Hash af hunda­kyni. Hún tók við stöðunni af Bor­der collie-tík­inni Lucy Lou. Brynn naut yf­ir­burðastuðnings í kosn­ing­un­um og hlaut rúm­lega 3.300 at­kvæði. Þar með skaut hún kett­in­um Stellu og asn­an­um Higg­ins ref fyr­ir rass.

For­veri henn­ar í starfi naut mik­ill­ar hylli og um tíma ætlaði hún að gefa kost á sér til for­seta. 

Kosn­ing­arn­ar fóru reynd­ar fram á síðasta ári og Brynn tók við embætt­inu í byrj­un árs en á síðustu dög­um hef­ur frétt­in um kjörið farið eins og eld­ur í sinu um net­heima. Eig­andi Brynn seg­ir að hún ætli sér að stjórna af ást og friði.

Í frétt AP-frétta­stof­unn­ar um málið seg­ir að Rabbit Hash sé svo lít­ill bær að eng­in þörf sé í raun á bæj­ar­stjóra. Íbú­arn­ir hafi hins veg­ar ákveðið að efna til söfn­un­ar til góðgerðar­mála með uppá­tæki sínu. Í fyrra brann versl­un bæj­ar­ins til kaldra kola og í kosn­ing­un­um nú var því safnað til end­urupp­bygg­ing­ar henn­ar.

mbl.is