Bindast vinaböndum á fjalli

Á fjöllum þarf ýmsan búnað.
Á fjöllum þarf ýmsan búnað. Ljósmynd/John Snorri Sigurjónsson

„Það fer rosalega mikil orka í að vera vakandi fyrir umhverfinu. Við höfum þurft að forða okkur frá nokkrum snjóflóðum,“ segir John Snorri Sig­ur­jóns­son sem er í grunnbúðum K2, næst hæsta fjalls heims, sem hann hyggst klífa upp á topp í þessum mánuði. Með honum er meðal annars sherp­inn Tser­ing Pemba sem kleif einnig Lhotse-fjallið með honum í maí.  

John er í grunnbúðum fjallsins núna en hópurinn sem telur alls sex manns hefur lagt línur upp í 2. búðir en þurfti frá að hverfa vegna veðurs. Næst verður reynt að koma línu frá búðum tvö og upp í þær fjórðu 8. júlí næstkomandi. Stefnt er að því að klífa alla leið upp á topp um 20. júlí.  

Eng­inn hef­ur reynt að ná upp á topp fjalls­ins síðastliðin tvö ár. K2 er 8.611 metr­ar að hæð í Kara­koram-fjall­g­arðinum á landa­mær­um Kína og Pak­ist­ans og er talið illkleifasta fjall heims. Þegar John kemst á topp­inn verður hann fyrst­ur Íslend­inga til þess. Í maí síðastliðnum gerði John sér lítið fyrir og var fyrst­ur Íslend­inga á topp Lhot­se-fjalls sem er fjórði hæsti tind­ur heims, 8.516 metra hár. 

„Mér líður rosalega vel og er tilbúinn í þetta. Ég get lagt af stað upp á topp þegar færi gefst,“ segir John og bætir við að hann eigi ekki í neinum erfiðleikum með að aðlagast hæðarmuninum því hann býr vel að því að hafa klifið Lhotse í síðasta mánuði. Súrefnið er mun þynnra í þessari hæð.

Íslenskt vetrarveður

„Fjallið er svo rosalega erfitt. Það er ekki hægt að stóla á neinar veðurspár því þær eru svo breytilegar. Þetta er sannkallað íslenskt vetrarveður,“ segir John en bálhvasst hefur verið á fjallinu, snjófjúk og blautur snjór.

Á meðan beðið er eftir því að komast upp í 2. búðir nýtir John tíma til að halda sér í formi með gönguferðum. „Í dag var ég að þvo þvott. Ég var nýbúinn að hengja hann út þegar fór að snjóa og ég þurfti að taka hann inn í tjald,“ segir John. Á fjöllum eru frumstæðar aðferðir notaðar til þvotta og þrífa eins og gefur að skilja. Hins vegar þarf John að færa tjaldið reglulega í grunnbúðunum því snjóbráðin er svo mikil að vatnið getur auðveldlega flotið inn ef ekki er hugað að því. 

Biðtíminn á fjallinu eftir því að halda áfram getur einnig reynt á en John segist taka því af jafnaðargeði. Aðrir hópar eru einnig á svæðinu sem freista þess að reyna að ná upp á topp í veðurglugganum sem opnast vonandi í þessum mánuði. Þar af eru tveir Pólverjar sem hyggjast skíða niður af toppnum þegar upp er komið. „Ég skil ekki alveg hvernig þeir ætla að fara að því,“ segir hann og furðar sig á uppátækinu.

Í öðrum hóp, sem er einnig í grunnbúðunum, er einn Svíi sem reynir í annað sinn að komast upp á topp. Hann var á fjallinu árið 2008 þegar að minnsta kosti 11 manns létu lífið. Hann á erfitt með að tala um þessa reynslu og klökknar þegar þetta er rætt, að sögn Johns. 

„Það verða allir miklir vinir hér því þegar maður reynir mikið á líkamann verður maður meyr og hefur ekki eins mikinn skjöld. Þess vegna myndast öðruvísi tengsl milli manna,“ segir John. 

Setja upp minningarskildi 

Í þessari ferð verður komið upp 21 minningarskildi til að heiðra minningu þeirra sem hafa látið lífið á fjallinu og ekki fundist. Þeim verður komið fyrir á svokölluðum minnisvarða og þeir festir upp þegar fjallgöngugarparnir koma niður af tindinum.      

Kvik­mynda­gerðarmaður­inn Kári Schram hef­ur fylgt John Snorra eft­ir í nokkra mánuði við und­ir­bún­ing ferðar­inn­ar. Kári er að vinna að alþjóðlegri heim­ild­ar­mynd um ferðalagið og fylgdi John Snorra einnig í grunn­búðir Ev­erest fyr­ir nokkr­um vik­um þegar John Snorri gekk upp á fjórða hæsta fjall heims Lhot­se.

Hægt er að fylgjast með John á vefsíðunni Lífsspor en hann safn­ar áheit­um fyr­ir Líf Styrkt­ar­fé­lag á leið sinni.

Hér er einnig hægt að fylgjast með ferðum Johns á fjallinu.

Tjaldbúðir í K2
Tjaldbúðir í K2 Ljósmynd/John Snorri Sigurjónsson
Náttúran er stórbrotin.
Náttúran er stórbrotin. Ljósmynd/John Snorri Sigurjónsson
Toppurinn sem John hyggst klífa.
Toppurinn sem John hyggst klífa. Ljósmynd/John Snorri Sigurjónsson
Útsýnið er ægifagurt úr tjaldinu hans Johns.
Útsýnið er ægifagurt úr tjaldinu hans Johns. Ljósmynd/John Snorri Sigurjónsson
Það þarf að koma sér fyrir í grýttu fjallinu.
Það þarf að koma sér fyrir í grýttu fjallinu. Ljósmynd/John Snorri Sigurjónsson
mbl.is