Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur óskað eftir því að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á aðdraganda þess að neyðarbrautinni á Reykjavíkurflugvelli var lokað.
„Eins og kemur fram í erindi nefndarinnar til Ríkisendurskoðunar snýst skýrslubeiðnin um að stofnunin framkvæmi úttekt á stjórnsýslu, framkvæmd, skilvirkni og ákvarðanatöku innanríkisráðherra, Samgöngustofu og Isavia vegna lokunar á neyðarbrautinni,“ segir Njáll Trausti, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í dag.
„Nefndin telur rétt að varpað sé ljósi á samskipti stjórnvalda og Reykjavíkurborgar og samskipti þessara aðila í stjórnsýslunni og þá sérstaklega lögformleg samskipti Isavia og Samgöngustofu,“ segir Njáll Trausti. Hann segir tilefnið m.a. vera upplýsingar sem komu fram á fundi nefndarinnar með fulltrúum Isavia, Samgöngustofu og öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna í maí og í kjölfarið.