Lögreglumaður, sem skaut blökkumanninn Philando Castile til bana í júlí í fyrra, hefur samið um starfslok á lögreglustöðinni þar sem hann starfaði. Dómstóll í Minnesota sýknaði hann af ákæru vegna málsins fyrr á árinu.
Times greinir frá því að Jeronimo Yanez hafi verið greiddir 48.500 dollarar fyrir að láta af störfum. Það samsvarar um fimm milljónum króna.
Frétt mbl.is: Bandarískur lögreglumaður sýknaður
Lögreglumaðurinn Jeronimo Yanez, 29 ára, var sýknaður af þremur ákærum: Annars vegar fyrir manndráp af annarri gráðu og hins vegar fyrir að hafa viljandi hleypt af hættulegu skotvopni og þar með lagt kærustu Castile í hættu ásamt fjögurra ára dóttur hennar. Mæðgurnar voru í bílnum þegar Castile var skotinn til bana.
Síðustu andartök Castile náðust á myndbandi sem var birt í beinni útsendingu á Facebook og vakti málið mikla athygli.
Samkvæmt málsskjölum stöðvaði Yanez parið vegna þess að það leit út eins og fólk sem hafði framið rán í kjörbúð í grenndinni og vegna þess að bremsuljós á bílnum virkaði ekki. Castile upplýsti lögreglumanninn um að hann væri með byssu í bílnum og bað Yanez hann um að teygja sig ekki eftir henni.
Skömmu síðar skaut lögreglumaðurinn Castile sjö skotum þar sem hann sat enn í ökumannssætinu með beltið spennt. Kærasta hans segir að hann hafi verið að teygja sig í veskið sitt en ekki byssuna.
Upptakan af atvikinu vakti mikla hneykslan í Bandaríkjunum og varð drápið á Castile tilefni mótmæla en það átti sér stað daginn eftir annað dráp lögreglumanns á blökkumanni í Baton Rouge í Lúisíana.