Fleiri á móti inngöngu í átta ár

Norden.org

Fleiri hafa verið and­víg­ir inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið en hlynnt­ir í öll­um skoðana­könn­un­um sem birt­ar hafa verið hér á landi und­an­far­in átta ár eða frá því sum­arið 2009. Hvort sem kann­an­irn­ar hafa verið gerðar af Gallup, MMR, Fé­lags­vís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands eða öðrum.

Miðað við niður­stöður nýj­ustu skoðana­könn­un­ar­inn­ar, sem gerð var af MMR og birt fyr­ir helgi, eru 47,9% and­víg inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið en 29% henni hlynnt. Ef aðeins er tekið mið af þeim sem tóku af­stöðu með eða á móti eru 62,3% and­víg inn­göngu og 37,7% hlynnt.

Fleiri eru mjög and­víg­ir inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið en eru sam­an­lagt frek­ar eða mjög hlynnt­ir henni eða 31,7% á móti 29%. Sé aðeins horft til þeirra sem eru mjög and­víg­ir eða hlynnt­ir inn­göngu í sam­bandið eru nær þre­falt fleiri mjög and­víg­ir en mjög hlynnt­ir henni.

Þannig eru 31,7% mjög and­víg­ir inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið en 11,3% mjög hlynnt­ir henni. Þá vek­ur at­hygli að þris­var sinn­um á und­an­förn­um mánuðum hef­ur MMR mælt þá sem hlynnt­ir hafa verið því að ganga í sam­bandið færri en þá sem ekki tekið af­stöðu með eða á móti.

Stjórn­ar­and­stæðing­ar hlynnt­ari inn­göngu

Fleiri eru and­víg­ir en hlynnt­ir inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið óháð kyni, bú­setu, tekj­um og mennt­un. Hins veg­ar eru and­stæðing­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar frek­ar á því að ganga í sam­bandið. Þá eru fleiri stuðnings­menn annarra flokka en Sjálf­stæðis­flokks­ins og Fram­sókn­ar­flokks­ins hlynnt­ir því.

Þegar kom fram á sum­arið 2009 höfðu kann­an­ir um ára­bil ým­ist sýnt fleiri hlynnta því að ganga í Evr­ópu­sam­bandið eða and­víga inn­göngu. Þetta breytt­ist sam­hliða um­sókn um inn­göngu í sam­bandið sem send var þá um sum­arið og hafa all­ar kann­an­ir síðan sýnt fleiri and­víga inn­göngu.

Meðan um­sókn­in var í há­mæli mæld­ist mun­ur­inn á and­stæðum fylk­ing­um enn meiri en verið hef­ur síðustu árin. Þannig var fjöldi þeirra sem voru and­víg­ir inn­göngu í sam­bandið rúm­lega þre­falt fleiri en þeir sem vildu í sam­bandið sum­arið 2012 sam­kvæmt könn­un sem MMR gerði.

Mun­ur­inn fór síðan minnk­andi í kjöl­far þing­kosn­ing­anna 2013 þegar málið var tekið af dag­skrá. Minnst­ur varð hann sam­kvæmt könn­un­um MMR í júlí 2014 þegar hann mæld­ist 7,7% eða 45,1% gegn 37,4%. Sam­kvæmt nýj­ustu könn­un­inni mæl­ist hann hins veg­ar 18,9%. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina