Þegar hin fertuga Justine Damond hringdi í lögregluna til að tilkynna um mögulega kynferðislega árás í hverfinu þar sem hún bjó, átti hún líklega ekki von á því að skömmu síðar yrði hún skotin til bana af lögreglumanni.
Þremur dögum síðar hefur fjölskylda Damond enn ekki fengið nein svör um ástæður þess að lögreglumaðurinn dró upp byssu og skaut Damond þar sem hún stóð á náttfötunum fyrir utan heimili sitt. Slökkt var á myndbandsupptökuvélum sem lögreglumennirnir báru á sér.
Tveir lögreglumenn mættu á vettvang eftir að Damond hafði hringt í neyðarlínuna og tilkynnt um árásina. Tuttugu mínútum eftir að hún hringdi hafði hún verið skotin til bana fyrir utan heimili sitt. Samkvæmt frétt CNN fréttastofunnar voru engin vopn á vettvangi.
Lögregluþjónarnir, Mohamed Noor og Matthew Harrity, hafa báðir verið settir í leyfi frá störfum sínum á meðan málið er rannsakað. Er Noor sagður vera lögreglumaðurinn sem skaut Damond. Lögmaður hans hefur vottað fjölskyldu Damond samúð.
„Hann tekur þessu mjög alvarlega því fyrir hann er það að vera lögreglumaður köllun,“ sagði Thomas Plunkett, lögmaður Noor, í yfirlýsingu. „Hann gekk til liðs við lögregluna til að þjóna samfélaginu og vernda fólkið sem hann þjónar. Noor er umhyggjusamur maður sem á fjölskyldu sem hann elskar og finnur til með fólkinu sem nú hefur upplifað missi.“
Að því er fram kemur í frétt CNN hefur þrisvar sinnum verið kvartað undan Noor, en tvö málanna eru enn til skoðunar. Þriðja málið leiddi ekki til áminningar.
„Ég skil hvers vegna svo margir spyrja spurninga á þessum tímapunkti. Ég spyr einnig sömu spurninga og þess vegna fórum við strax fram á utanaðkomandi og sjálfstæða rannsókn á málinu,“ sagði Janeé Harteau, lögreglustjóri í Minneapolis, í yfirlýsingu. Er það sú rannsóknarstofnun sem fer með rannsókn málsins, en ekki lögreglan í Minneapolis.
Betsy Hodges, borgarstjóri Minneapolis, segir málið hafa haft mikil áhrif á sig. Hún segist vilja svör við sömu spurningum og aðrir, t.d. af hverju slökkt af verið á myndavélum sem lögreglumennirnir báru.
Unnusti Damond hélt blaðamannafund fyrir utan heimili sitt í gærkvöldi og sagðist vera eyðilagður vegna fráfalls unnustunnar en þau ætluðu að gifta sig bráðlega.
Hann segist í öngum sínum og krefjast svara. Atvikið átti sér stað í rólegu hverfi þar sem glæpir eru fágætir. Justine Damond var fertug og bjó í Minneapolis ásamt unnusta sínum.