Stjórnvöld í Þýskalandi hafa engan rétt á að skipta sér af innanríkismálum Tyrklands. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti lét þessi orð falla í dag. Samskipti ríkjanna tveggja fara nú sífellt versnandi, ekki hvað síst vegna þess að þýsk yfirvöld hafa handtekið mikinn fjölda fólks undanfarið, m.a. nokkra þýska ríkisborgara, í nafni neyðarlaganna sem komið var á í landinu eftir misheppnaða valdaránstilraun síðasta sumar.
Yfirvöld í Þýskalandi hafa nú varað landsmenn við að yfirvöld geti ekki tryggt öryggi þeirra sem ferðast til Tyrklands og að ekki sé öruggt að þýska sendiráðið í Tyrklandi geti aðstoðað viðkomandi.
Þá hefur Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, varað þýsk fyrirtæki við því að fjárfesta í tyrkneskum fyrirtækjum og sagði að endurskoða þyrfti samskipti ríkjanna.
„Tyrkland er lýðræðisríki sem byggir á lögum og enginn hefur rétt á að skipta sér af innanlandsmálum þess,“ sagði Erdogan í dag. Varðandi orð Gabriels sagði Erdogan að bæði Tyrkland og Þýskaland væru aðilar að NATO. „Við Tyrkir erum nú í samningaferli til að gerast aðilar að Evrópusambandinu.“
Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, varaði Erdogan í viðtali við þýska dagblaðið Bild við því að hann væri að stofna aldagömlu sambandi Þýskalands og Tyrklands í hættu.
„Þetta er verulega átakanlegt – því það er raunverulega svo margt sem tengir okkur. En við látum ekki kúga okkur,“ sagði Schaeuble í viðtalinu sem birt verður í blaðinu á morgun.