17 blaðamenn og starfsmenn tyrkneska stjórnarandstöðublaðsins Cumhuriyet eru ákærðir fyrir tengsl við hryðjuverkasamtök. Réttað er í máli þeirra í dag og ef þeir verða fundnir sekir geta þeir átt yfir höfði sér allt að 43 ára fangelsisvist. Þeir eru ákærðir í aðgerðum yfirvalda í kjölfar valdaránstilraunarinnar í landinu í júlí í fyrra. BBC greinir frá.
Réttarhöldin eru hafin í dómshúsi í Istanbúl sem eru jafnframt sögð fordæmisgefandi um tjáningarfrelsi fjölmiðla í landinu.
Að minnsta kosti 19 blaðamenn og starfsmenn blaðsins hafa verið handteknir eftir valdaránstilraunina. Af þeim hafa tíu verið í fangelsi í að minnsta kosti níu mánuði. Blaðið Cumhuriyet hefur verið í fararbroddi í gagnrýni á forsetann Recep Tayyip Erdogan.
„Ég get ekki faðmað hann,“ segir Elif Gunay, dóttir blaðamannsins Turhans Gunays, sem er 71 árs að aldri. Hún fær að heimsækja föður sinn í fangelsið einu sinni í viku, klukkutíma í senn. Hún talar við hann í gegnum síma í glerbúri. Hún segir heilsu föður síns hafa hrakað mikið eftir að hann var handtekinn og hann stríði við mikinn heilsufarsvanda.
Hún gagnrýnir stjórnvöld fyrir að leyfa honum ekki að vera frjáls ferða sinna gegn tryggingu til að njóta læknisaðstoðar.
Turhan Gunay, sem er ritstjóri þess hluta blaðsins sem gefur út bækur, segist ekki skilja fyrir hvaða sakir hann sitji í fangelsi. „Þetta eru pólitískar ofsóknir. Þeir eru fangelsaðir fyrir að sinna vinnunni sinni,“ segir hún.
Frá valdaránstilrauninni í fyrra hefur að minnsta kosti 150 fjölmiðlum verið lokað. Talið er að um 165 blaðamenn sitji í fangelsi í Tyrklandi. Flestir voru handteknir í kjölfar valdaránstilraunarinnar í fyrra.