Þrátt fyrir að rúmir fimm mánuðir séu liðnir frá því að íslenski fiskiskipaflotinn hélt að nýju til veiða eftir tíu vikna verkfall gætir áhrifa verkfallsins ennþá. Verkfallið hafði alvarleg áhrif á sölu- og markaðsstarf á erlendum mörkuðum. Fisksalar misstu ekki aðeins traust erlendra kaupenda heldur eru einnig dæmi þess að þeir hafi misst pláss í hillum verslunarrisa og það hefur reynst örðugt til þessa að vinna plássið til baka.
Jón Georg Aðalsteinsson, stjórnarformaður Ice-co, var meðal þeirra sem vöruðu við áhrifum verkfallsins þegar það stóð sem hæst. Fyrirtækið var komið með þorsk inn í 3.500 verslanir Walmart í flestum ríkjum Bandaríkjanna, á vesturströndinni, austurströndinni og í miðríkjunum.
Til stóð að fjölga verslunum um tvö þúsund í framhaldinu og fjölga jafnframt tegundunum í Walmart , þ.e. hefja sölu á ýsu og bleikum fisk frá Íslandi í verslunum keðjunnar en þau áform urðu að engu eftir að verkfallið skall á. Fyrirtækið gat ekki lengur afhent vöruna svo verslunarrisinn leitaði annað. Um ferskfiskinn gilda líka önnur lögmál en um frosinn fisk þar sem hann þarf að afhenda á hverjum degi, og geymist ekki eins og sá frosni.
„Þetta hjá Walmart er ekkert komið til baka,“ segir Jón Georg. „Þetta er búið að skaða okkur mjög mikið og hafa tilraunir til að ná þessu til baka hafa ekki gengið eftir hingað til,“ bætir hann við en fyrirtækið þurfti að segja upp starfsmönnum og endurskipuleggja reksturinn vegna verkfallsins.
„Við erum vissulega að reyna að koma þessu aftur í gang, en það er alls óvíst hvort að það náist,“ segir Jón Georg. „Verslunarkeðjurnar úti í heimi eru ekkert að setja sig inn í það hvað sé að gerast í kjaramálum á Íslandi. Þeir fylla dýrmætt hillupláss af vörum sem neytandinn vill kaupa, og ef þeir fá ekki fiskinn hér á Íslandi þá verða þeir að finna aðrar lausnir. Þegar þú segist vera kominn aftur, og þeir eru búnir að finna aðrar lausnir og viðkomandi aðili er að skaffa vöruna, hefur stórmarkaðurinn enga ástæðu til að skipta,“ segir Jón Georg.
Walmart var einn stærsti kaupandi fisks af fyrirtækinu en það selur einnig til Kanada og á Evrópumarkað, s.s. Sviss, Frakkland og Bretland. „Verkfallið hafði líka mikil áhrif þar. Markaðsstarfið fer á byrjunarreit, á mörgum mörkuðum erum við á sama stað og við vorum á fyrir ári,“ segir Jón Georg.
Walmart henti þó íslenskum fiski ekki alveg úr hillum sínum, en magnið sem fer í hillur verslunarinnar er um fimm prósent af því sem áður var. Engin hagkvæmni er í því að selja svona lítið magn að sögn Jóns Georgs, en haldið er í vonina um að með staðfestu megi með tíð og tíma byggja upp sama viðskiptasamband og fyrir verkfall.
Fyrsti markaðurinn sem fyrirtækið byrjaði að selja fisk inn á var Sviss og tókst Ice-co að halda þjónustustiginu þar nokkuð vel, með samstilltu átaki Odda á Patreksfirði. „Þeir eiga hrós skilið. Þeir lögðu sig fram við að skaffa fisk frá smábátum til að við misstum ekki hilluplássið, og það skilaði sér því við náðum að halda þeim viðskiptum,“ segir hann.