„Þetta var stórfenglegt“

John Snorri fagnar í grunnbúðum ásamt Kára Schram.
John Snorri fagnar í grunnbúðum ásamt Kára Schram. Ljósmynd/Lífsspor á K2

„Við verðum hérna í nokkra daga, svo er verið að mana mig að fara upp á Broad Peak,“ segir John Snorri í samtali við mbl.is frá grunnbúðum fjallsins K2. Stundin á toppnum var stórfengleg og kveðst hann hamingjusamur og glaður. 

Ótrúleg sjón

„Ég er ákaflega stoltur og ánægður að hafa klárað K2,“ segir John. Vel var tekið á móti John í grunnbúðum og að sögn heyrði hann hrópin og köllin langa leið. „Ég fékk svo núðlusúpu og kókglas,“ segir hann og hlær.

John glaður með núðlusúpuna sem beið hans eftir 10 klukkustunda …
John glaður með núðlusúpuna sem beið hans eftir 10 klukkustunda ferðalag. Ljósmynd/Lífsspor á K2.

John lýsir því hvernig hann hafi farið upp fjallið í leiðindaveðri og suma daga hafi hann ekki komist út úr tjaldinu vegna veðurs. „Svo þegar við erum komin á toppinn þá rofaði til! Það var ótrúleg stund. Ótrúleg sjón, útsýnið og fjöllin í kring. Þetta var stórfenglegt,“ segir John.

Reynir mögulega við K3

Hann varð í gær fyrstur Íslendinga á topp fjallsins K2 sem er 8.611 metrar. Þann 16. maí var hann einnig fyrstur Íslendinga á fjallið Lhotse sem er 8.516 metra hátt og það fjórða hæsta í heimi. Nú veltir John því fyrir sér að reyna við Broad Peak, sem einnig nefnist K3, áður en hann kemur heim.

„Mig langar svolítið að reyna það, það er frekar erfitt að komast upp en maður er fljótur að því,“ segir John. Ef af verður yrði hann sá þriðji í heiminum til þess að fara upp á K2, niður og aftur upp á Broad Peak.

Gæti slegið hraðamet

„Sá sem hefur gert það hraðast hefur gert það á 8 dögum, ég gæti jafnvel náð því á 6 dögum,“ segir John. Fjallið er beint á móti K2 og fari svo að John reyni að klífa það fer hann af stað úr grunnbúðum K2.

„Ef ég fer mun ég sennilega leggja af stað á morgun eða hinn,“ segir John. Aðspurður hvort hann sé tilbúinn í það verkefni segir hann: „Ég er búinn að vera á fjöllum í 4 mánuði nánast svo ég er alveg ágætur. Ég þarf bara að borða vel.“

Að lokum kveðst John Snorri innilega glaður og þakklátur fyrir allan stuðninginn sem hann hefur fengið. „Systir mín vinnur í apóteki og fólk er að koma þar inn og tala um þennan John,“ segir hann og hlær.

Fjallagarpurinn veltir því nú fyrir sér að reyna við Broad …
Fjallagarpurinn veltir því nú fyrir sér að reyna við Broad Peak eða K3 áður en hann heldur af stað til heim til Íslands. Ljósmynd/Lífsspor á K2
Mikil fagnaðarlæti tóku á móti John í dag en hópurinn …
Mikil fagnaðarlæti tóku á móti John í dag en hópurinn hans er sá fyrsti til þess að komast á toppinn síðan 2014. Ljósmynd/Lífsspor á K2
mbl.is