Guðni býður John Snorra á Bessastaði

John Snorri stefnir á að vera kominn heim um miðjan …
John Snorri stefnir á að vera kominn heim um miðjan ágúst. Ljósmynd/Lífsspor á K2

John Snorri Sigurjónsson ætlar ekki að reyna við fjallið Broad Peak heldur koma heim í faðm fjölskyldunnar. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ætlar að bjóða honum til sín á Bessastaði þegar hann kemur til Íslands um miðjan ágúst. 

Í samtali við mbl.is í gær sagðist John Snorri vera að velta því fyrir sér að klífa fjallið Broad Peak áður en hann kæmi aftur heim. Mbl.is hefur nú fengið þær upplýsingar að fjallagarpurinn hafi ákveðið að gera það ekki. 

John segir gönguna til Askoli, sem er næsta þorp við grunnbúðir K2, taka um fjóra daga. Þá þarf að koma sér til herþorpsins Skardu og reyna að ná flugi þaðan, en það getur stundum verið erfitt að hans sögn.

Áætluð heimkoma kappans er um miðjan ágúst en hann hefur nú verið í burtu í fjóra mánuði. Það er því óhætt að fullyrða að um fagnaðarfundi verði að ræða þegar John Snorri snýr aftur heim eftir þau gríðarlegu afrek að hafa verið fyrstur Íslendinga til þess að klífa fjöllin K2 og Lhotse.

Fleiri bíða komu Johns til Íslands en fjölskyldan, en Guðni Th. sendi honum kveðju þegar hann var á leiðinni upp fjallið þar sem hann kvaðst vilja bjóða honum á Bessastaði. 

mbl.is