„Þetta er neyðaróp frá okkur“

mbl.is/Alfons Finsson

„Þetta er í raun og veru neyðaróp frá okkur,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, en stjórn sambandsins skoraði á sjávarútvegsráðherra fyrir helgi að breyta lögum um veiðigjöld en þau verða rúmlega tvöfalt hærri í ár en þau voru á síðasta ári.

Sem dæmi má nefna að veiðigjöld á þorsk hækka úr 11,09 krónum á kílóið upp í 22,98 krónur á kíló sem nemur 107 prósenta hækkun og veiðigjöld á ýsu hækka úr 11,53 krónum á kílóið upp í 26,2 krónur sem er 127 prósenta hækkun. 

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Örn segir að margir smábátaeigendur hafi sett sig í samband við samtökin og lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni þar sem þeir hafi leigt til sín miklar aflaheimildir og þurfa fyrir vikið að greiða hátt veiðigjald.

Áður greiddu aflahlutdeildahafarnir veiðigjaldið en í dag er það sá sem veiðir fiskinn. Þá eru gjöldin reiknuð út frá fiskveiðiárinu 2015 þegar afurðaverð var miklu hærra en í dag og afkoma greinarinnar mun betri en núna. „Smábátaeigendur hafa ekki haft þannig hagnað að þeir hafi haft tök á að leggja til hliðar. Það sést til dæmis í sambandi við nýsmíðar á bátum. Þær hafa nánast alveg lagst af,“ segir Örn um fjárfestingar í greininni.

mbl.is