Fátt sem bendir til breytinga á veðri

mbl.is/Brynjar Gauti

Tíðarfar verður fremur rólegt þessa vikuna og á það einnig við um daginn í dag. Vindar verða hægir víðast hvar og úrkoma í litlu mæli. Það geta myndast síðdegisskúrir til landsins enda er tiltölulega kalt í háloftunum. Bjartast verður norðanlands, en einnig má reikna með sólarköflum vestanlands, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Þetta rólega tíðarfar virðist svo ætla að ná fram í næstu viku og er það heppilegt nú þegar stærsta ferðahelgi ársins er rétt handan við hornið. Enn eru nokkrir dagar til stefnu, en fátt bendir þó til þess að veðurguðirnir ætli sér að breyta um ham,“ segir ennfremur á vef Veðurstofu Íslands.

Spáin í dag:

Norðaustan 5-10 m/s úti við norðurströndina og einnig sums staðar við austurströndina í dag, annars hægari norðaustlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum og stöku skúrir sunnan til en víða bjartviðri norðan til. Hiti 11 til 17 stig en nokkru svalara austast.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Hæg breytileg átt eða hafgola, skýjað með köflum og stöku skúrir S-til, en léttskýjað nyrðra. Hiti 10 til 18 stig en 7 til 11 austanlands. 

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt skýjað með köflum og stöku skúrir. Hiti 8 til 17 stig hlýjast á suðvesturhorninu. 

Á sunnudag og mánudag (frídagur verslunarmanna):
Útlit fyrir áframhaldandi hægviðri, stöku skúrir og svipað hitafar.

mbl.is