Gera má ráð fyrir fínasta veðri um helgina og mun víðast hvar sjást til sólar. Þetta segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is. Hægur vindur er í kortunum og hiti á bilinu 8 til 16 stig.
Samkvæmt spá Veðurstofunnar verður veðrið ekki afgerandi gott á einum stað, heldur svipað um allt land. Má gera ráð fyrir að víðast verði skýjað með köflum en stöku skúrir við og við.
Að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar verður tíðarfar fremur rólegt þessa vikuna og á það við um daginn í dag. „Þetta rólega tíðarfar virðist svo ætla að ná fram í næstu viku og er það heppilegt nú þegar stærsta ferðahelgi ársins er rétt handan við hornið. Enn eru nokkrir dagar til stefnu, en fátt bendir þó til þess að veðurguðirnir ætli sér að breyta um ham,“ segir þar.
Gera má ráð fyrir að hlýjast verði á suðvesturhorninu um helgina, en bjartast norðanlands. Þó má reikna með sólarköflum vestanlands.
„Vindar verða hægir víðast hvar og úrkoma í litlu mæli. Það geta myndast síðdegisskúrir til landsins, enda er tiltölulega kalt í háloftunum,“ segir á vef Veðurstofunnar.