Gúrkutíð í veðrinu

Veðrið hefur leikið við landsmenn undanfarið. Kannski ekki alltaf allt …
Veðrið hefur leikið við landsmenn undanfarið. Kannski ekki alltaf allt landið á sama tíma en allir landshlutar hafa fengið sinn skerf af sól og blíðu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Það er gúrkutíð í veðrinu, veður svipað frá degi til dags og veðurspár í styttri kantinum. Flestir þó sáttir því sú gúrka sem hér um ræðir er ágæt, hæglætisveður og sólríkt á köflum vestan- og norðanlands í dag, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Getur gert skúrir til fjalla og í innsveitum. Svipað veður verður uppi á teningnum fram yfir helgi. Hiti mætti þó vera hærri, sjáum sennilega hámarkshita um 18 stig í dag, en hámarkshiti austanlands nærri 10 stigum. Engin met þar á ferð, en slíkt veður hamlar þó litlu hvað varðar ferðalög og útiveru, sem er alltaf jákvætt,“ segir ennfremur á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðaustan 5-10 m/s úti við norðurströndina annars hæg breytileg átt. Skýjað með köflum og stöku skúrir sunnan til en víða bjartviðri norðan- og vestanlands. Hiti 10 til 18 stig, en nokkru svalara austast.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:

Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og stöku skúrir. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á suðvesturhorninu. 

Á sunnudag, mánudag (frídagur verslunarmanna) og þriðjudag:

Útlit fyrir áframhaldandi hægviðri, stöku skúrir og svipað hitafar.

mbl.is