„Þetta er bara dásemdin ein núna. Nú er komin sól í Eyjum og þetta er líklega besti fimmtudagur í flutningum til Eyja hvað farþegafjölda varðar hjá Herjólfi,“ segir Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs í samtali við mbl.is.
Þjóðhátíðargestir eru farnir að streyma til Eyja en að sögn Gunnlaugs hefur verið svo gott sem fullur bátur í öllum ferðum Herjólfs frá Landeyjahöfn í dag sem þykir gott miðað við fimmtudaginn fyrir verslunarmannahelgi. „Það er búin að vera mjög góð mæting af farþegum þannig það er greinilegt að þetta er stór þjóðhátíð,“ segir Gunnlaugur.
Alls tekur Herjólfur 524 farþega í hverri ferð en þetta er í áttunda skiptið sem siglt er frá Landeyjahöfn til Eyja um þjóðhátíð. Uppselt er í allar ferðir til Eyja nú yfir þjóðhátíð. „Svo er Akranesið að sigla sex ferðir á morgun og það er ennþá eitthvað af miðum laust í það, sérstaklega fyrripartinn,“ segir Gunnlaugur.
Hann hvetur farþega til að gefa sér góðan tíma fyrir brottför enda geti það tekið nokkurn tíma að koma sér og farangri í skipið. Búast má við að bílastæðið verði orðið troðfullt seinnipartinn á morgun að sögn Gunnlaugs.
„Bílastæðin munu fyllast og við hvetjum fólk til þess að gefa sér tíma og koma snemma og gera ráð fyrir að það taki smá tíma að komast úr bílum að skipsslipp þannig að fólk lendi ekki í því að missa af sinni ferju eða sínu sæti,“ segir Gunnlaugur.
Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum var góð stemning í Herjólfi í dag og þjóðhátíðargestir spenntir fyrir helginni í dalnum.