Verslunarmannahelgin nálgast óðfluga en það er sú helgi sem hefur lengi verið talin ein aðalferðahelgi okkar Íslendinga. Víða um land eru haldnar ýmiskonar útihátíðir og því hyggjast margir leggja land undir fót.
Þótt flestar hátíðirnar gangi alla jafna vel fyrir sig hafa kynferðisbrot verið tilkynnt, þótt dregið hafi úr slíku með auknu forvarnastarfi. Í Morgunblaðinu í dag segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir hjá Stígamótum að samtökin væru ekki með neina sérstaka viðbragðsáætlun vegna verslunarmannahelgarinnar, sama verklag væri hjá þeim og áður; að taka á móti þolendum kynferðisbrota og veita þeim ráðgjöf.
Spurð hvort fleiri leiti til Stígamóta eftir verslunnarmannahelgi en aðrar helgar segir Steinunn að fólk sé að koma jafnt og þétt yfir árið. Í fyrra leituðu til Stígamóta átta manns sem hafði verið nauðgað á útihátíð en alls hafa 39 leitað til Stígamóta á síðastliðnum fimm árum vegna nauðgana á útihátíð.