Líkt og undanfarin ár munu starfsmenn Samgöngustofu standa vaktina um verslunarmannahelgina í útvarpi Rásar 1 og 2 og á Bylgjunni. „Í útvarpinu er ætlunin að miðla fróðleik og upplýsingum til vegfarenda sem getur orðið þeim til halds og traust svo það sé betur tryggt að þeir komi heilir heim,“ segir Einar Magnús Magnússon hjá Samgöngustofu. Einnig munu starfsmenn hafa eftirlit á flugvöllum með loftlutningum.
Verslunarmannahelgin er ein stærsta ferðahelgi ársins og af því tilefni vill Samgöngustofa vekja athygli fólks á mikilvægum atriðum varðandi umferðaröryggi.
Einar Magnús leggur áherslu á að menn taki enga áhættu hvað varðar akstur eftir neyslu áfengis eða annarra vímuefna. Hefur Samgöngustofa töluverðar áhyggjur af því í ljósi þess að í samanburði áranna 2015 og 2016 varð rúmlega tvöföldun í fjölda slysa sem rakin eru til ölvunaraksturs.
„Það eru ýmsar falskar raddir sem óma í kollinum á þeim sem eru undir áhrifum,“ segir Einar Magnús. Því er mikilvægt að aðstandendur, fjölskylda og vinir, geri allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir að fólk aki af stað eftir neyslu áfengis.
Þá segir hann að reyna skuli með góðu að tala viðkomandi til og jafnvel fela bíllykla. Ef það dugar ekki til vill Samgöngustofa hvetja aðstandendur til að sýna umhyggju sína fyrir viðkomandi með því að hringja í lögreglu í 112. „Afleiðingar af því, hvað varðar samskipti við viðkomandi, eru lítilvægar í samanburði við afleiðingar og þær sorgir sem hljótast oft af ölvunarakstri,“ segir Einar Magnús.
Einnig minnir hann á að starfsfólk á veitingahúsum og bensínstöðvum ber ákveðna skyldu í þessum efnum. Verði það vart við að ölvaður einstaklingur hyggist setjast undir stýri ber því skylda til samkvæmt lögum að koma í veg fyrir brotið m.a. með því að láta lögreglu vita.
Einar Magnús segir fólk oft ekki gera sér grein fyrir að svefn og þreyta geti skert hæfni fólks til aksturs líkt og um væri að ræða áhrif vímuefna. Það er mikilvægt að vera vel úthvíldur, stoppa reglulega og teygja úr sér auk þess að drekka og borða eitthvað uppbyggjandi en vatnsskortur getur haft mjög slæm áhrif á einbeitingu.
Einar Magnús leggur einnig áherslu á að fólk hagi akstri samkvæmt aðstæðum og haldi jöfnum hraða við aðra umferð. „Þeir sem þurfa að fara hægar skulu haga akstri þannig að auðvelt sé og öruggt að komast fram úr þeim og þeir sem ætla fram úr skulu gera það á þeim stöðum sem óhætt er og gæta fyllsta öryggis.“
Veðurspá er nokkuð góð og það má búast við þungri umferð og því um að gera að sýna tillitssemi og þolinmæði. Einar Magnús bendir á að hafa skuli í huga að fjölbreyttur hópur ökumanna og ökutækja er á ferðinni þessa helgi. Fólk á reiðhjólum, bifhjólum, stórir bílar, litlir bílar með tjaldvagna, hjólhýsi og ýmiss konar eftirvagna og allt er þetta fjölbreyttur hópur ökumanna sem eru bæði vanir og óvanir.
„Allir þessi ólíku hópar vegfarenda eiga sama rétt á að koma heilir heim með góðar minningar í farteskinu og við þurfum öll að leggjast á eitt með að svo megi verða. Njótum stundarinnar og keppum ekki við klukkuna,“ segir Einar að lokum.