Þjóðhátíðarnefnd hefur ákveðið að banna flug svokallaðra dróna á meðan á Þjóðhátíð Vestmannaeyja stendur til þess að tryggja öryggi gesta og koma í veg fyrir að óhöpp eigi sér stað.
Mbl.is greindi frá því í gær að flug allra fjarstýrðra loftfara yrði bannað inni í Herjólfsdal á meðan á hátíðarhöldum stendur. „Þetta er eingöngu til þess að tryggja öryggi gesta,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson,talsmaður Þjóðhátíðarnefndar.
Í Herjólfsdal verða eingöngu fjarstýrð loftför á vegum þjóðhátíðarnefndar og viðbragðsaðila en Jónas segir að þau muni ekki vera beint yfir fólki. Eru þau aðallega ætluð til þess að taka myndir í safn, til auglýsinga og fleira.
Ákvörðunin var tekin í samvinnu við Lögregluna í Vestmannaeyjum en reglugerð er í bígerð um notkun dróna í margmenni og þéttbýli. Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn segir ákvörðunina ráðast af skynsemi um að ekki sé verið að fljúga flygildunum yfir mannfjöldann til þess kemur að eitthvað skyldi bila.
„Þetta er alltaf að aukast og því fleiri sem eru því meiri eru líkurnar á því að eitthvað bili,“ segir Jóhannes en notkun dróna í Herjólfsdal varðar við refsingu.