Fimm íslenskir keppendur í topp 10

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er sem stendur í þriðja sæti í …
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er sem stendur í þriðja sæti í sínum flokki. Mynd úr safni. mbl.is

Þau Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Annie Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Björgvin Karl Guðmundsson og Hilmar Harðarson, eru sem stendur öll inni á topp tíu í sínum flokki í heildarkeppni heimsleikanna í crossfit. Staðan á leikunum getur þó breyst hratt, oft er stutt á milli keppnisgreina og geta úrslit í hverri grein haft talsverð áhrif á stöðuna í heildarkeppninni.

Alls er fimm greinum lokið í einstaklingskeppni karla og kvenna á leikunum, þremur í gær og tveimur í dag. Keppnisdeginum er þó ekki lokið en nú innan skamms hefst keppni í næstsíðustu grein dagsins.

Sem stendur er Björgvin Karl í þriðja sæti í karlaflokki og Hilmar Haraldsson, sem keppir í flokki karla 60 ára og eldri, er í fimmta sæti að loknum þremur keppnisgreinum.

Ragnheiður Sara er efst íslenskra keppenda í kvennaflokki í þriðja sæti, þá Annie Mist sem er í fimmta sæti og strax á eftir henni í sjötta sæti er Katrín Tanja sem bæði í fyrra og árið þar áður tryggði sér titilinn „hraustasta kona í heimi.“ Þá er Þuríður Erla Helgadóttir er sem stendur í 16. sæti í heildarkeppninni.

Ekki hefur gengið eins vel hjá íslensku liðunum tveimur sem keppa á leikunum. Að loknum fimm greinum er lið Crossfit Reykjavík í 23. sæti í heildarstigakeppninni og lið Crossfit XY í því 29. sem stendur. 

Hægt er að fylgj­ast með leik­un­um í beinni hér að neðan og all­ar nán­ari upp­lýs­ing­ar um mótið er að finna á heimasíðu og sam­skiptamiðlum leik­anna.

mbl.is