Umferðin hefur það sem af er degi gengið stórslysalaust fyrir sig en litlu hefur mátt muna í minnst þremur tilfellum í dag. Segja má að hrein og klár lukka hafi í þeim tilfellum forðað frá mjög alvarlegum slysum.
Þetta segir Einar Magnús Magnússon sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu, um umferðina í dag, nú þegar upp er runnin stærsta ferðahelgi ársins. „Við verðum bara að líta á það sem áminningu til okkar allra að ábyrgðin er okkar. Við eigum ekki að treysta á heppnina,“ ítrekar Einar.
Vísar hann þar til þriggja umferðarslysa sem hafa orðið í dag, árekstur sem varð milli vöruflutningabíls og fólksbifreiðar í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi rétt við Sólheimasand í morgun og óhapp sem varð norðan við Hvalfjarðargöng og það þriðja sem varð rétt fyrir klukkan þrjú í dag þegar bíll valt rétt austan við Hvolsvöll.
„Sem betur fer þá slasaðist enginn alvarlega og það má því ætla að þetta fólk hafi notast við öryggisbelti því að við sjáum það í öllum slysaskráningum hjá okkur að þegar að menn eru ekki að nota öryggisbelti þá verða afleiðingarnar mjög mjög alvarlegar,“ segir Einar.
Að sögn Einars er er nú byrjað að draga úr umferðinni. Töluvert mikil umferð hafi verið vestan við Selfoss þar sem umferð var orðin hæg. „En fólk virðist almennt vera bæði kurteist og þolinmótt í langflestum tilfellum en það er aðeins að minka traffíkin skilst mér núna,“ segir Einar. Nú séu flestir farnir af stað og jafnvel þegar komnir á áfangastað.
Ljóst er að í dag hefur talsvert meiri umferð verið austur á bóginn um Suðurlandsveg samanborið við umferðartölur um Vesturlandsveg í dag þótt þar hafi umferð einnig verið nokkur.
„Við höfum verið blessunarlega laus við alvarleg slys um verslunarmannahelgi undanfarin ár, sjö, níu, þrettán,“ segir Einar. Hvað ölvunarakstur varðar hafi þó því miður orðið aukning bæði á fjölda slasaðra og fjölda slysa.
„Þessi tilgangur okkar með því að standa vaktina um helgina og allt þetta eftirlit lögreglu er auðvitað það að forða mönnum frá því að vera að fara bæði vansvelta, örþreyttir og jafnvel undir áhrifum vímuefna, á þá á ég líka við um áfengis, eins og á sunnudag á mánudag,“ segir Einar. „Því miður þurfum við að hamra á þessu núna.“
Umferð hefur verið talsverð í umdæmi lögreglunnar á Akureyri þar sem fram fer hátíðin Ein með öllu og íslensku sumarleikarnir. Umferðin hefur þó gengið nokkuð vel fyrir sig en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu höfðu sex ökumenn verið stöðvaðir fyrir of hraðan akstur það sem af er degi. Sá sem mældist á mestum hraða var á 130 km/klst.
Fleiri lögreglumenn eru á vakt á Akureyri um helgina en gengur og gerist um helgar enda um að ræða stærstu ferðahelgi ársins þar sem umferð er mikil og margt er um manninn í bænum.
Þétt og mikil umferð hefur verið í dag á Egilsstöðum og nágrenni en þar fer fram um helgina unglingalandsmót UMFÍ. Talið er að gestir unglingalandsmóts séu í kringum 5.000 manns að sögn lögreglu og því talsvert fleiri í bænum en almennt um verslunarmannahelgi. Umferð hefur þó gengið vel og slysalaust fyrir sig þrátt fyrir nokkurn umferðarþunga.
Lögreglan á Egilsstöðum er jafnframt betur mönnuð um helgina, bæði til að sinna virku umferðareftirliti auk gæslu á landsmótssvæðinu í góðu samstarfi við björgunarsveitir.
Uppfært kl. 19:41
Bílvelta varð í Hestfirði á Vestfjörðum á sjötta tímanum í dag. Er það fjórða umferðarslysið sem tilkynnt hefur verið neyðarlínu í dag.