Fjögurra mánaða á Þjóðhátíð í Eyjum

Emelíana Erla, Ágúst, Sveinn Jörundur, Guðbjörg og Rebekka prúðbúin á …
Emelíana Erla, Ágúst, Sveinn Jörundur, Guðbjörg og Rebekka prúðbúin á setningu Þjóðhátíðar Vestmannaeyja í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Eyjamærin Rebekka Ágústsdóttir er ein af þeim yngstu sem mæta á Þjóðhátíð Vestmannaeyja í ár. Hún er aðeins fjögurra mánaða gömul en unir sér vel í fallega skreyttu hvítu tjaldi við Skvísusund í Herjólfsdal.

Myndi aldrei sleppa Þjóðhátíð

Rebekka er mætt á sína fyrstu Þjóðhátíð en móðir hennar Guðbjörg Erla Ríkharðsdóttir er sjálf mikið þjóðhátíðarbarn, eins og gjarnan er sagt um Eyjamenn og aðra sem láta sig sjaldan vanta á hátíðina. „Við erum það eiginlega öll fjölskyldan,“ segir Guðbjörg en hún hefur sjálf aðeins misst af tveimur Þjóðhátíðum til þessa. „Það var af því að ég var dregin burt af mömmu og pabba, það var ekki mín ákvörðun,“ segir hún og brosir.

Ásamt Rebekku eiga þau Guðbjörg og Ágúst Halldórsson börnin Emelíönu Erlu og Svein Jörund. Emelíana er að verða 10 ára og Sveinn er 4 ára. Aðspurð hvort henni finnist ekki vesen að mæta á Þjóðhátíð með þrjú börn segir Guðbjörg: „Nei ég myndi aldrei sleppa því. Þetta er alltaf þess virði.“

Kaffiboð í tjaldinu

Guðbjörg segir undirbúninginn fyrir hátíðina ekki síður stóran part af fjörinu og börnin hafi gaman af að taka þátt í honum. Samkvæmt venju mætir öll stórfjölskyldan prúðbúin á setningu hátíðarinnar og svo er veglegt kaffiboð í hvíta tjaldinu á eftir.

„Það er mikið lagt í þetta, búið að smyrja og baka og standa í ströngu. Svo kaupum við alltaf þjóhátíðarköku með blysi á, það er alveg hápunkturinn hjá krökkunum,” segir Guðbjörg. Emelíana og Sveinn segjast ekki síður spennt fyrir Þjóðhátíð en foreldrarnir. „Þetta er svona á pari við jólin myndi ég segja,“ segir Guðbjörg.

Hvíta tjald fjölskyldunnar er glæsilegt á hverju ári. Sævald Páll, …
Hvíta tjald fjölskyldunnar er glæsilegt á hverju ári. Sævald Páll, mágur Guðbjargar, sem er fyrir miðri mynd sá um skreytingarnar í ár. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Svipað og jólin

En hvað er það sem Guðbjörgu finnst skemmtilegast við Þjóðhátíð? „Mér finnst allt skemmtilegt, hvort sem það er dagur, kvöld eða nótt. Ég myndi ekki vilja sleppa neinu,” segir hún. „Auðvitað tekur maður mismikinn þátt þegar maður er með svona lítil börn en ég þyrfti að liggja inni á spítala til þess að fara ekki á Þjóðhátíð,“ segir Guðbjörg að lokum. 

Emelíana Erla mætir alltaf í dalinn með mömmu og pabba og finnst henni barnadagskráin mjög skemmtileg. Í ár er hún sérstaklega spennt fyrir Emmsjé Gauta en undirbúningurinn finnst henni einnig rosalega skemmtilegur. Myndi hún vilja missa af Þjóðhátíð? „Nei,” segir hún ákveðin og bætir við að Þjóðhátíð sé eitt það skemmtilegasta sem hún geri. „Svona svipað og jólin,“ segir hún að lokum.

mbl.is