Halda Íslandsmót í kubbi á Flateyri

Frá mótinu í fyrra.
Frá mótinu í fyrra. ljósmynd/Huldar Breiðfjörð

„Þetta er leikur sem leynir á sér. Fólk fyllist miklu kappi en engu að síður getur öll fjölskyldan spilað,“ segir Huldar Breiðfjörð, einn skipuleggjenda Íslandsmótsins í kubbi, sem fram fer á Flateyri á sunnudag.

Er þetta í annað sinn sem mótið er haldið í bænum, en það vakti mikla lukku í fyrra að sögn Huldars. „Við byrjuðum á þessu í fyrra og þá kepptu tólf þriggja manna lið. En það var ekki annað hægt en að halda það aftur því þetta var svo skemmtilegt,“ segir hann.

Spilað verður í þriggja manna liðum og fer mótið fram á flötinni við Hafnarstræti, fyrir framan kránna Vagninn. Skráning á stendur yfir en takmarkaður fjöldi kemst að. Huldar segir liðið sem hreppti Íslandsmeistaratitilinn í fyrra stefna að því að verja titilinn, en önnur lið hafi einnig æft stíft með það að markmiði að hreppa titilinn.

Liðið Hafberg sem fór með sigur af hólmi í fyrra.
Liðið Hafberg sem fór með sigur af hólmi í fyrra. ljósmynd/Huldar Breiðfjörð

„Það er titrandi spenna í loftinu,“ segir Huldar og bætir við að mikill áhugi sé á íþróttinni. Hann hafi hringt í fjölda verslana í dag og komist að því að kubbur er alls staðar uppseldur. „Þetta er hið nýja þjóðarsport, eða allavega hið nýja garðíþróttin.“

Dómari mótsins verður Tryggvi Jónsson, en leikar hefjast klukkan 14. Auk Íslandsmeistaratitilsins eru í boði vegleg verðlaun að sögn Huldars. Þá munu Hálfdan Pedersen og Freyr Frostason stjórna flugeldasýningu á keppnissvæðinu að kvöldi mótsdags.

Frekari upplýsingar um mótið og skráningu má finna á Facebook-viðburði mótsins.

mbl.is