Veðurblíðan lék við gesti þjóðhátíðar þegar hátíðin var sett með formlegum hætti í Herjólfsdal í dag. Það var Stefán Jónsson sem setti þjóðhátíð og hátíðarræðu flutti Eyjakonan Arndís María Kjartansdóttir. Þá fluttu Kór Landakirkju, Karlakór Vestmannaeyja og Lúðrasveit Vestmannaeyja tónlistaratriði.
Góð stemning var í sólskininu í dalnum og margt um manninn. Gestum mun þó enn fjölga og smátt og smátt tínast fleiri gestir á svæðið en svo virðist sem það stefni í afar fjölmenna þjóðhátíð í ár.
Barnadagskrá hófst klukkan 15:45 þar sem Brúðubíllinn mætti meðal annars á svæðið. Kvöldvaka hefst svo klukkan níu þar sem Ragga Gísla frumflytur þjóðhátíðarlagið 2017 á stóra sviðinu. Brennan verður svo á sínum stað á Fjósakletti á miðnætti og heldur gleðin áfram fram eftir nóttu þar sem fjöldi listamanna kemur fram.