„Þetta er með svolítið öðruvísi sniði og minna um sig en það hefði bara verið svo sorglegt að láta þetta fjara út,“ segir Finnur Yngvi Kristinsson, hótelstjóri Sigló Hótel, um bæjarhátíðina Síldarævintýrið sem ákveðið hefur verið að halda á Siglufirði um helgina, þrátt fyrir að fréttir hafi borist fyrr á árinu um að hátíðin færi ekki fram.
Verður ekki um formlega bæjarhátíð að ræða þetta árið, heldur hefur félagið Rauðka efh. tekið að sér að skipuleggja létta og fjölskylduvæna dagskrá um helgina.
Á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar í maí var ákveðið að Síldarævintýrið yrði ekki haldið í sumar, en hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1991. Auglýst var eftir áhugasömum aðila til viðræðna við sveitarfélagið um framkvæmd Síldarævintýrisins 2017 en engin viðbrögð bárust innan tímaramma.
Finnur segir þjónustuaðila á svæðinu hins vegar hafa ákveðið að skipuleggja dagskrá. „Bærinn hefur verið að leggja alltof mikla peninga í þetta sjálfur eða allt undir sjö milljónir á ári. Við vorum sammála um að þeim fjármunum væri betur varið annars staðar og þess vegna taka þjónustuaðilar þetta að sér og gera fyrir eðlilegri upphæðir,“ segir hann.
Rauðka ehf. heldur formlega utan um skipulagninguna, en Sigló Hótel er ein af rekstrareiningum félagsins. Þá hafa fleiri aðilar komið að undirbúningnum. „Þetta eru þjónustuaðilar á svæðinu að sýna sína vöru og setja inn í dagskrá,“ segir Finnur, en bætir við að fjölbreytt dagskrá verði í bænum.
Í kvöld mun hljómsveitin Úlfur Úlfur koma fram á tónleikum, á morgun verður landleguball með Stúlla og Danna, og á sunnudag spilar hljómsveitin Amabandama fyrir dansi. Þá verða gönguferðir, hjólaferðir og bátsferðir í boði og útigrill, listasýningar og síldarhlaðborð svo eitthvað sé nefnt. Auk þess verða hoppukastalar og leikgrindur á svæðinu fyrir ungu kynslóðina. „Það kennir ýmissa grasa og þetta verður mjög fjölskylduvænt,“ segir Finnur.
En hversu mörgum er gert ráð fyrir? „Það er ekkert markmið sett á rosalegan fjölda en verslunarmannahelgin hefur alltaf verið þannig að ef það er gott veður er brjálað að gera en ef ekki er ekkert að gera. Það er ágætt að sníða sinn stakk eftir því og hafa þetta ekki of stórt í vexti,“ segir Finnur.