Crossfit Reykjavík úr keppni

Evert Víglundson, yfirþjálfari og eigandi Crossfit Reykjavík.
Evert Víglundson, yfirþjálfari og eigandi Crossfit Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er sorglegt. Allir sem hafa einhvern tímann tekið þátt í íþróttakeppni og mögulega lent í því að einhver meiðist og þarf að hætta keppni eða eitthvað svoleiðis, það þekkja allir þá tilfinningu,“ segir Evert Víglundsson, yfirþjálfari og eigandi Crossfit Reykjavík, í samtali við mbl.is.

Lið Crossfit Reykjavík þurfti í dag að draga sig úr keppni á heimsleikunum í crossfit eftir að Hilmars Árnasonar, einn sex einstaklinga í liðinu, fékk tak í bakið í upphitun fyrir tíundu keppnisgrein leikanna og gat liðið því ekki tekið þátt.

„Við urðum bara að draga okkur úr keppni, því miður,“ segir Evert. „Reglurnar eru þannig að ef þú tekur ekki þátt í öllum greinunum þá ertu dottinn úr keppni. Þetta er mjög leiðinlegt, þau voru búin að standa sig mjög vel og voru bara í góðum gír og við vorum öll ánægð með árangurinn, þetta var akkúrat samkvæmt plani þannig að það var bara mjög leiðinlegt.“

Regla sem enginn skilur

Svo virðist sem gömul meiðsli hafi tekið sig upp hjá Hilmari en samkvæmt reglum keppninnar má varamaður ekki stíga inn ef einn liðsmaður meiðist eða þarf af einhverjum ástæðum að hætta keppni.

„Lífið er meira virði heldur enn að skemma eitthvað í íþróttakeppni þannig að við tókum bara skynsamlega ákvörðun um það að láta þetta bara gott heita,“ útskýrir Evert.

„Það er svona ein regla sem enginn skilur hérna í crossfit-heiminum, af hverju má ekki nýta sér varamenn. Það er eitthvað sem hefur verið regla frá því að þessi liðakeppni byrjaði fyrir nokkrum árum síðan. Ég skil ekki þessa reglu en hún er þarna.“

Íslensku stelpurnar „að brillera“

Þrátt fyrir vonbrigðin mun lið Crossfit Reykjavík og hópurinn í kringum liðið halda áfram að fylgjast grannt með öðrum keppendum á leikunum en fjöldi Íslendinga eru staddir í Madison til að fylgjast með.

„Það er mjög mikið af Íslendingum hérna, mikið stuð. Það er gaman að vera í þessu hringleikahúsi, sem þeir kalla „colosseum,“ þar sem flestar greinarnar fara fram,“ segir Evert. „Það eru íslenskir fánar og íslensk hróp og köll um allan sal sem er mjög skemmtilegt.“

„Stelpurnar okkar eru bara að brillera, íslensku stelpurnar eru bara að standa sig frábærlega. Þær skiptast á fyrsta sætinu bara eftir hverja einustu grein. Þetta hefur aldrei verið svona ofboðslega spennandi,“ segir Evert, sem hlakkar til að fylgjast áfram með keppninni.

„The Mat Fraser Show“ í karlaflokki 

Þá sé Björgvin Karl einnig að standa sig frábærlega en í karlaflokki er keppnin um fyrsta sætið þó ekki jafn spennandi og í kvennaflokki.

„Þeir kalla þetta hérna úti „The Mat Fraser Show.“ Hann er á einhverju öðru „leveli“ en hinir, það er alveg magnað,“ segir Evert og vísar þar til bandaríkjamannsins Matt Fraser sem fór með sigur af hólmi í fyrra og leiðir keppnina með afgerandi forystu í ár.

mbl.is