„Þetta lítur hrikalega vel út, gott veður og allir bara orðnir mjög spenntir,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar í samtali við mbl.is. Þjóðhátíð var sett í blíðskaparveðri í gær og að vanda var boðið upp á fjölbreytt skemmtiatriði sem halda áfram alla helgina.
Kvöldvakan hófst með heimastúlkunni Söru Renee úr Eyjum sem tók lagið. Þá mættu meðal annarra á svæðið MC Gauti og Rigg, hópur þjóðþekktra söngvara. Þá má ekki má gleyma Röggu Gísla sem samdi þjóðhátíðarlagið í ár sem hún að sjálfsögðu flutti fyrir fjöldann sem lét fara vel um sig í brekkunni í Herjólfsdal.
Bjarni Ólafur Guðmundsson afhenti Röggu lunda fyrir hönd þjóðhátíðarnefndar sem þakklætisvott fyrir þjóðhátíðarlagið.
Á miðnætti var svo tendrað í brennunni og hélt veislan áfram fram eftir nóttu. Gríðargóð stemning var í dalnum líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum sem ljósmyndari mbl.is fangaði á filmu.