„Við erum hérna í Bolungarvík og þetta bara lítur ótrúlega vel út. Við höfum fengið drauma veðurspána,“ segir Thelma Rut Jóhannsdóttir, aðstoðardrullusokkur um mýrarboltann sem í ár fer fram í Bolungarvík en ekki á Ísafirði líkt og venjulega.
„Okkur langaði aðeins að breyta til, þetta er allt miklu hentugra. Þetta er betra svæði, það er styttra í laugina, styttra í ána, bara við hliðina á tjaldsvæðinu, við þurfum ekkert að vera með neinar rútur á eitthvað ball, ballið er bara hérna 500 metrum frá tjaldsvæðinu þannig að þetta er eiginlega bara allt á sama stað,“ útskýrir Thelma, spurð hvernig það kom til að keppnin var færð yfir í Bolungarvík.
Skráningu liða líkur klukkan tíu í kvöld og segir Thelma þátttökuna í ár stefna í að vera með svipuðu móti og í fyrra. „Við erum bara bjartsýn og okkur finnst gaman að sjá að það sé ennþá áhugi. Það er gaman að sjá að það er mikið af nýjum liðum og tvö erlend lið,“ bætir hún við.
Einu sinni áður hefur erlent lið tekið þátt í mýrarboltanum að sögn Thelmu en liðin sem skráð eru til leiks í ár koma frá Rússlandi og Litháen og komu þau sérstaklega til Íslands, nánar tiltekið til Bolungarvíkur, til að taka þátt í mýrarboltanum.
Keppni hefst klukkan tólf á morgun en þótt skráningu í liðakeppnina sé lokið verður áfram á morgun hægt að skrá sig í skraflið sem einstaklingur.