Mikil gleði hefur ríkt um allt land um helgina, en fjöldi hátíða fer nú fram um verslunarmannahelgina. Þjóðhátíð í Eyjum hefur hugsanlega aldrei verið stærri og virðast flestar hátíðir um landið vera vel sóttar, en veður hefur víðast hvar verið milt og gott.
Í Reykjavík hefur tónlistarhátíðin Innipúkinn farið fram um helgina, í 16. sinn. Steinþór Helgi Arnsteinsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, segir allt hafa gengið eins og í sögu. „Þetta náði einhvers konar hápunkti í gær með Siggu Beinteins,“ segir hann.
Að sögn Steinþórs hefur verið troðfullt af fólki á hátíðinni og mikil gleði. Í kvöld munu FM Belfast, Dimma og XXX Rottweiler svo loka hátíðinni. „Ég á von á því að við sprengjum einhverja skala í kvöld,“ segir Steinþór.
Evrópumeistaramótið í mýrarbolta fór fram í 14. sinn í gær, og var að þessu sinni haldið í Bolungarvík. Jóhann Bæring Gunnarsson, einn skipuleggjenda mótsins, segir vel hafa gengið með keppnishöld, en þrettán lið kepptu um tiltilinn. Var það svokallað „skraplið“ sem fór með sigur af hólmi í þetta sinn, en um er að ræða lið sem sett er saman fyrir fólk sem vill taka þátt en er ekki í liði.
Jóhann segir að aldrei hafi færri heimalið tekið þátt í keppninni, en þau voru aðeins þrjú. Langstærstur hluti keppenda hafi því verið aðkomufólk.
Spurður um það hvernig hafi gengið á nýjum stað segir Jóhann að mótshaldarar hafi lært ýmislegt. „Þetta er auðvitað nýtt mótssvæði og það kom í ljós að við þurftum að vökva það miklu meira en gamla svæðið. Svo það eru fullt af atriðum sem við lærum og getum gert betur,“ segir hann.
Verðlaunaafhending fer fram í kvöld, og munu keppendur og aðrir svo fagna á dansleikjum með SSSól og Páli Óskari í kvöld. „Nú eru menn að skola af sér skítinn og hvíla lúin bein og taka svo á því í kvöld,“ segir Jóhann.
Á Akureyri eru íslensku sumarleikarnir nú haldnir í annað sinn samhliða bæjarhátíðinni Einni með öllu. Halldór Óli Kjartansson, einn skipuleggjenda, segir allt hafa gengið frábærlega. „Allir viðburðir eru vel sóttir og það hefur verið gott veður svo þetta er bara búið að vera æðislegt,“ segir hann.
Spurður um fjölda segir Halldór að erfitt sé að meta hann þar sem ekki sé selt inn á viðburði. „Svo búa svo margir á Akureyri að ef allir héðan myndu koma yrði náttúrulega fullt,“ segir hann. „En það hefur verið fullur miðbær þegar hátíðarhöldin standa hæst.“
Segir Halldór viðburðinn Mömmur og möffins til að mynda hafa verið mjög vel sóttan, en um var að ræða möffinssölu í Lystigarðinum og rann allur ágóði til fæðingardeildarinnar á Akureyri. Er deildin að safna fyrir nýjum hjartsláttarmónitor og söfnuðust alls 805 þúsund krónur sem renna óskipt til deildarinnar.
Fjöldi keppnisgreina hefur verið í boði um helgina, og segir Halldór íslensku sumarleikana gera hátíðina enn fjölbreyttari en áður. „Við vildum gefa íþróttaviðburðum meira vægi. Íslensku vetrarleikarnir eru hér á veturna svo við ákváðum að halda íslensku sumarleikana samhliða Einni með öllu. Þetta er frábært fyrir fjölskyldufólk og alla,“ segir hann.
Í dag fara síðustu keppnisgreinar fram, en það er annars vegar upphill götuhjólakeppni upp Listagilið og hins vegar townhill kirkjutröppubrun á fjallahjólum. Þá endar gleðin á svokölluðum sparitónleikum í kvöld þar sem Amabadama, 200.000 Naglbítar og Úlfur Úlfur koma meðal annarra fram. Munu smábátaeigendur kveikja á rauðum blysum og endar kvöldið á flugeldasýningu.
Þá hefur verið líf og fjör á Siglufirði þar sem Síldarævintýrið fer fram. Fjallað hafði verið um fyrr á árinu að hátíðin yrði ekki haldin, en þjónustuaðilar á svæðinu ákváðu á síðustu stundu að halda hátíðina. Er því ekki um formlega bæjarhátíð að ræða þetta árið, heldur hefur félagið Rauðka ehf. tekið að sér skipulagningu léttrar og fjölskylduvænnar dagskrár.
„Þetta er búið að ganga ljómandi vel,“ segir Finnur Yngvi Kristinsson, hótelstjóri Sigló Hótel. „Bæjarbúar eru sérstaklega ánægðir með þetta.“
Fjölbreytt dagskrá hefur verið í bænum, þar á meðal gönguferðir, hjólaferðir og bátsferðir, útigrill, listasýningar og síldarhlaðborð svo eitthvað sé nefnt. „Viðburðirnir hafa verið mjög vel sóttir og það er búið að vera mikið stuð og stemning,“ segir Finnur. Hátíðinni lýkur í kvöld þegar hljómsveitin Amabandama leikur fyrir dansi.
Unglingalandsmót UMFÍ er haldið á Egilsstöðum um helgina, en tæplega eitt þúsund keppendur á aldrinum 11 til 18 ára hafa keppt í hinum ýmsu keppnisgreinum. Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ, segir frábæra stemningu hafa verið á svæðinu. „Það eru allir búnir að skemmta sér konunglega,“ segir hann.
„Það er mjög gaman að fara um svæðið og sjá hvað allir eru glaðir og enginn með vandræði,“ segir Jón og bætir við að allt hafi farið vel fram. Engin lögreglumál hafi komið upp í kringum mótið. „Þetta er gleði á heilbrigðan hátt og öll fjölskyldan saman,“ segir hann.
Keppendurnir þúsund eru alls skráðir í um fjögur þúsund greinar, en meðal þess sem keppt hefur verið í eru hinar ýmsu íþróttir, stafsetning, upplestur og þrek svo eitthvað sé nefnt. Þá verður keppt í kökuskreytingum í dag og hafa yfir hundrað skráð sig til leiks.
Í Vatnaskógi fara fram Sæludagar KFUM og KFUK, en Ögmundur Ísak Ögmundsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, segir um 850 manns vera á svæðinu. „Við eigum von á því að það bætist enn fleiri við í dag,“ segir hann og bætir við að allt hafi gengið mjög vel.
Sæludagar eru ein stærsta vímuefnalausa hátíðin á landinu um verslunarmannahelgina, og að sögn Ögmundar hefur allt farið mjög vel fram. Tónleikar með bræðrunum Friðriki Dór og Jóni Jónssonum fóru fram á föstudag, og í kvöld er svo lokadagskrá og brekkusöngur.