Útlit fyrir hæga breytilega átt á landinu í dag en hann blæs aðeins með vesturströndinni - allt að 10 m/s. Það eru víða líkur á skúrum í dag og síðdegis verða sums staðar hellidembur.
„Það vill svo til að Vestmannaeyjar er sá staður sem er einna líklegastur til að hanga þurr við þá stöðu sem nú er á veðrakerfum. Ef falla skúrir í Eyjum, ættu þeir alltént ekki að verða efnismiklir. Hitinn svipaður og verið hefur, eða 10 til 15 stig nokkuð víða.
Á morgun er spáð norðlægri eða breytilegri átt, 3-8 m/s og ætti því vindur ekki að trufla heimferð bifreiða með aftanívagna. Einhver væta gerir vart við sig nokkuð víða, en hann ætti að hanga þurr um landið suðvestanvert,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Spáin fyrir næstu daga:
Hæg breytileg átt í dag, en norðan 5-10 m/s með vesturströndinni. Skýjað að mestu og víða skúrir, sums staðar hellidembur síðdegis.
Norðlæg eða breytileg átt 3-8 á morgun og væta með köflum, en þurrt um landið suðvestanvert. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast sunnanlands.
Á mánudag (frídagur verslunarmanna):
Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Víða skúrir eða rigning, en þurrt að mestu um landið suðvestanvert. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast suðvestanlands.
Á þriðjudag:
Hægviðri, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 11 til 16 stig. Sunnan 5-13 á vestanverðu landinu um kvöldið með dálítilli vætu.
Á miðvikudag:
Suðvestan 5-13 m/s með súld eða rigningu og hita 10 til 14 stig. Bjartviðri austanlands og hiti að 19 stigum.
Á fimmtudag:
Suðlæg eða breytileg átt 3-8 og rigning víða um land. Hiti 10 til 15 stig.
Á föstudag:
Norðaustanátt með rigningu og kólnandi veðri, en úrkomulítið og fremur hlýtt suðvestantil.
Á laugardag:
Minnkandi norðvestanátt. Bjartviðri sunnan- og vestanlands, en rigning norðaustantil.