Alls fóru 389 strandveiðibátar fram yfir 650 kílógramma hámark þess slægða afla sem landa má í einni veiðiferð, í nýliðnum júlímánuði. Alls stunduðu 549 bátar strandveiðar í mánuðinum og því lönduðu um 71% þeirra umframafla, en hann nam tæpum 36,5 tonnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fiskistofu, þar sem segir að uppsafnaður umframafli mánaðarins hafi verið mjög misjafn eftir bátum, eða frá einu kílói upp í 862 kíló.
Á meðfylgjandi töflu má sjá að sá bátur sem mestan umframafla veiddi var Mýrarfell SU-136 með 862 kg, en hann er gerður út á svæði C. Næstur kom Auðbjörg NS-200 með 650 kg.
Í tilkynningunni minnir Fiskistofa á að andvirði alls umframafla verður innheimt af útgerðunum og rennur til ríkisins í verkefnasjóð sjávarútvegs.
Umframaflinn dregst eftir sem áður frá leyfilegum heildarafla á strandveiðunum svo að minna verður til skiptanna. Það er því hagur allra strandveiðimanna að veiða ekki umfram heimildir.