Hátt í fimmtíu ofbeldismál komu inn á borð Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, í júlí. Aldrei hafa fleiri mál komið inn á borð miðstöðvarinnar á einum mánuði, frá opnun hennar í mars. Af málunum fimmtíu fóru um fjörtíu inn á borð lögreglu.
Málin sem komið hafa á borð Bjarkarhlíðar frá opnun í byrjun mars eru nú orðin á annað hundrað, en í lok júní voru þau orðin 103. Þá höfðu 53 málanna leitt til viðtals hjá lögreglu, og 18 leitt til kæru.
Að sögn Hafdísar Ingu Hinriksdóttur, félagsráðgjafa og sérfræðings hjá Bjarkarhlíð, voru málin sem komu á borð Bjarkarhlíðar í júlí bæði gömul og ný. Þá voru meðal annars lagðar fram þrjár kærur í fyrndum málum – þar sem brotaþolar vildu einfaldlega skila skömminni.
Eins og greint var frá á dögunum kom einnig metfjöldi mála á einum mánuði á borð neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis í júlí, þegar tuttugu og átta manns leituðu þangað. Samtals hefur 41 einstaklingur leitað til neyðarmóttökunnar í júní og júlí, og 110 það sem af er ári. Í fyrra leituðu fleiri en nokkru sinni á neyðarmóttökuna, en þá voru 169 komur skráðar.
Þá hafa þónokkur símtöl borist til Bjarkarhlíðar eftir nýliðna verslunarmannahelgi, þar sem fólk hefur pantað viðtalstíma, að sögn Hafdísar. Ekki er þó ljóst hvort um ný mál er að ræða eða gömul. Eins og greint var frá á mbl.is um helgina komu fimm kynferðisbrotamál upp, þar af þrjú tengd útihátíðum.
Bjarkarhlíð opnaði 2. mars síðastliðinn og er þróunarverkefni til tveggja ára (2017-2019). Meginmarkmið móttökumiðstöðvarinnar er að brotaþolar fái á einum stað þá þjónustu sem á þarf að halda í kjölfar ofbeldis. Auk sérfræðinga sem starfa í Bjarkarhlíð geta þolendur ofbeldis því einnig hitt lögreglu, fulltrúa frá Stígamótum, Drekaslóð, Samtökum um kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjöfinni á staðnum.