Nýr togari FISK Seafood, Drangey SK-2, hélt af stað heim á Sauðárkrók föstudaginn 4. ágúst. Áætlaður siglingartími í Skagafjörðinn er um hálfur mánuður og því er gert ráð fyrir heimkomu í kringum 18. ágúst.
Þetta kemur fram á vef Fisk Seafood.
Skipið var smíðað hjá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi en skrifað var undir samning um smíði á skipinu þann 24. júlí 2014. Skipið var sjósett þann 22. apríl síðastliðinn og afhent formlega þann 26. júlí í Tyrklandi.
Á Sjávarútvegssýningunni í Brussel þann 25. apríl síðastliðinn var skrifað undir samning við Skagann 3X um smíði á vinnslubúnaði á millidekkið á skipinu. Búnaðurinn er ofurkælibúnaður eins og er um borð í Málmey SK-1.
Rúm 44 ár eru síðan síðast kom nýsmíðaður togari á Sauðárkrók. Það skip hét einnig Drangey en bar einkennisstafina SK-1, og kom í fjörðinn frá Japan þann 5. maí 1973. Hin nýja Drangey kemur til með að leysa Klakk SK-5 af hólmi en Klakkur er 40 ára gamalt skip.
Áður hafa 200 mílur greint frá því að Cemre-skipasmíðastöðin í Tyrklandi smíði fjögur systurskip fyrir Íslendinga.
Kaldbakur EA, ísfisktogari Útgerðarfélags Akureyringa, kom í mars. Annar í röðinni var Björgúlfur EA, togari Samherja, sem kom til Dalvíkur í júnímánuði. Þriðja skipið er áðurnefnd Drangey og það fjórða, Björg EA, er smíðað fyrir Samherja og kemur til Akureyrar í haust.