Nýju skipi Samherja verður formlega gefið nafn við hátíðlega athöfn á Dalvík síðar í dag. Hlýtur skipið nafnið Björgúlfur en gamli Björgúlfur, sem nú ber nafnið Hjalteyrin, sigldi á móti nýja skipinu þegar það kom í fyrsta skipti til hafnar 1. júní síðastliðinn.
Skipið var smíðað í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi eins og systurskip þess, Kaldbakur, sem kom til landsins fyrr á árinu. Björgúlfur er 62 metra langur og er skipstjóri Kristján Salmannsson.
Þriðja skipið sem Samherji lætur smíða eftir sömu teikningu er síðan væntanlegt til landsins fyrir lok ársins.
Athöfnin hefst klukkan 16.00 við Norðurgarðinn á Fiskidagssvæðinu á Dalvík. Dalvíkingar og aðrir landsmenn eru hjartanlega velkomnir, að því er segir í tilkynningu frá Samherja.