Fjárfestingarnar aukið áhuga umheimsins

Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri Íslensku sjávarútvegssýningarinnar.
Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri Íslensku sjávarútvegssýningarinnar.

Fjárfestingar íslenskra útgerða hafa snaraukið áhuga umheimsins á öllum hliðum íslensks sjávarútvegs. Þetta segir Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, sem haldin verður dagana 13.-15. september.

Fram kemur á vef sýningarinnar að aðsókn í sýningarbása hafi aukist um 41% miðað við sama tíma árið 2014, en sýningin er haldin á þriggja ára fresti.

Rasmussen-Coulling segist þá upplifa mikinn áhuga víða um heim fyrir sýningunni. Enginn vafi leiki á að hún eigi eftir að vekja enn meiri athygli umheimsins á íslenskum sjávarútvegi.

„Sýningin er gríðarlega mikilvægur viðskiptavaki,” bætir hún við.

„Við sýningarstjórnin gerum okkur öll miklar væntingar til sýningarinnar í ár og hlökkum mjög til þess að fagna bæði íslenskum og erlendum gestum okkar. Mig langar líka til að minna á að nú er hægt að skrá sig sem gest á netinu. Þau sem skrá sig þar losna við biðraðir, spara sér um 20% af inngangsverði og geta farið hraðleið til að sækja aðgangsauðkenni sitt.“

mbl.is