Í síðustu viku fór heildarafli á strandveiðum sumarsins yfir níu þúsund tonn, en sjávarútvegsráðherra ákvað í byrjun mánaðarins að auka aflaheimildir um 560 tonn og verða þær 9.760 tonn á vertíðinni. Það er meira en nokkru sinni frá upphafi strandveiða í júní 2009, en þá var miðað við að heildarafli færi ekki yfir fjögur þúsund tonn.
Í gær greindi Fiskistofa frá því að strandveiðar á svæði A yrðu stöðvaðar frá og með morgundeginum, 16. ágúst, og er dagurinn í dag því síðasti dagur strandveiða ársins á svæðinu frá Arnarstapa að Súðavík.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, reiknar með að veiðar standi út vikuna á B- og C-svæðum, það er frá Súðavík til Grenivíkur og frá Húsavík til Djúpavogs.
Mestar aflaheimildir eru eftir á D-svæði frá Höfn í Borgarnes og reiknar Örn með að þær endist út mánuðinn. Alls hafa 592 bátar róið á strandveiðum í ár. Af þeim eru 227 á svæði A, en á hinum svæðunum eru bátarnir á bilinu frá 106-133, fæstir á D-svæði.