Tyrknesk yfirvöld hafa fært fyrrverandi markvörðinn Omer Catkic í varðhald. Catkic, sem lék meðal annars með Bursaspor í efstu deild tyrknesku knattspyrnunnar, er sakaður um að tilheyra hópi sem stóð á bak við misheppnað valdarán gegn Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, í fyrra.
Catcik var færður í varðhald en hann er talinn tengjast útlagaklerknum Fethullah Gulen. Tyrknesk yfirvöld telja að Gulen standi á bak við misheppnuðu valdaránstilraunina.
Catkic er sakaður um að hafa sent skilaboð í gegnum app sem yfirvöld telja að stuðningsmenn Gulen hafi notað til að skipuleggja valdaránið en Gulen hefur hins vegar ávallt neitað aðild að valdaráninu.
Catkic lék 19 A-landsleiki fyrir Tyrkland á árunum 1999-2012 en hann lagði hanskana á hilluna fyrir fimm árum. Síðan hefur hann unnið við leiklýsingar í sjónvarpi.
Yfir 50 þúsund manns eru í haldi í tengslum við valdaránið.