„Samstaðan skilaði sér og verð hækkaði“

Haldið til grásleppuveiða á Húsavík. Mynd úr safni.
Haldið til grásleppuveiða á Húsavík. Mynd úr safni. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

4.523 tonn veidd­ust af grá­sleppu á vertíðinni sem nú er lokið. Þetta er nokkuð minni afli en á síðustu vertíð en þá var afl­inn 5.318 tonn. Þetta kem­ur fram á vef Fiski­stofu.

Seg­ir þar að alls hafi 259 bát­ar greitt fyr­ir leyfi  til grá­sleppu­veiða á þess­ari vertíð og þau séu mis­mörg milli svæða. Aðeins átta leyfi hafi verið gef­in út fyr­ir svæði G og C en 92 leyfi fyr­ir svæði E, en það nær frá Skagatá aust­ur að Fonti á Langa­nesi.

Útgefn­um leyf­um mun þá hafa fjölgað lít­il­lega frá síðustu vertíð, eða um 14 leyfi, sem þýði 5,7% fjölg­un grá­sleppu­veiðileyfa. Útgefn­um grá­sleppu­veiðileyf­um hafi þrátt fyr­ir það fækkað nokkuð síðastliðnar vertíðir og til að mynda hafi þau verið 369 tals­ins árið 2011.

Þátt­taka í veiðunum fram­ar von­um

Afla­hæsti grá­sleppu­bát­ur­inn á vertíðinni var þá Sunna Rós SH-123 með rúm 50 tonn. Næst­ur kem­ur Fjóla SH-7 með 47 tonn af grá­sleppu. Báðir eru þess­ir bát­ar gerðir út á svæði B.

Á vef Lands­sam­bands smá­báta­eig­enda seg­ir að eft­ir að veiði á hvern dag hafði auk­ist 5 ár í röð, hefði hún nú minnkað um rúm­an þriðjung. Fara þurfi þá til vertíðar­inn­ar 2012 til að finna lak­ari veiði á hvern út­halds­dag held­ur en á síðustu vertíð.

„Þátt­taka í veiðunum var fram­ar von­um, þar sem í upp­hafi vertíðar leit út fyr­ir að fáir ætluðu til veiða. Helsta ástæða þess var óánægja með verð sem kaup­end­ur buðu. Samstaðan skilaði sér, verð hækkaði og bát­um fjölgaði á miðunum,“ seg­ir í til­kynn­ingu sam­bands­ins.

mbl.is