„Samstaðan skilaði sér og verð hækkaði“

Haldið til grásleppuveiða á Húsavík. Mynd úr safni.
Haldið til grásleppuveiða á Húsavík. Mynd úr safni. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

4.523 tonn veiddust af grásleppu á vertíðinni sem nú er lokið. Þetta er nokkuð minni afli en á síðustu vertíð en þá var aflinn 5.318 tonn. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu.

Segir þar að alls hafi 259 bátar greitt fyrir leyfi  til grásleppuveiða á þessari vertíð og þau séu mismörg milli svæða. Aðeins átta leyfi hafi verið gefin út fyrir svæði G og C en 92 leyfi fyrir svæði E, en það nær frá Skagatá austur að Fonti á Langanesi.

Útgefnum leyfum mun þá hafa fjölgað lítillega frá síðustu vertíð, eða um 14 leyfi, sem þýði 5,7% fjölgun grásleppuveiðileyfa. Útgefnum grásleppuveiðileyfum hafi þrátt fyrir það fækkað nokkuð síðastliðnar vertíðir og til að mynda hafi þau verið 369 talsins árið 2011.

Þátttaka í veiðunum framar vonum

Aflahæsti grásleppubáturinn á vertíðinni var þá Sunna Rós SH-123 með rúm 50 tonn. Næstur kemur Fjóla SH-7 með 47 tonn af grásleppu. Báðir eru þessir bátar gerðir út á svæði B.

Á vef Landssambands smábátaeigenda segir að eftir að veiði á hvern dag hafði aukist 5 ár í röð, hefði hún nú minnkað um rúman þriðjung. Fara þurfi þá til vertíðarinnar 2012 til að finna lakari veiði á hvern úthaldsdag heldur en á síðustu vertíð.

„Þátttaka í veiðunum var framar vonum, þar sem í upphafi vertíðar leit út fyrir að fáir ætluðu til veiða. Helsta ástæða þess var óánægja með verð sem kaupendur buðu. Samstaðan skilaði sér, verð hækkaði og bátum fjölgaði á miðunum,“ segir í tilkynningu sambandsins.

mbl.is