Bolfiskvinnsla áfram á Akranesi

Frá fiskvinnslu HB Granda á Akranesi fyrr á árinu.
Frá fiskvinnslu HB Granda á Akranesi fyrr á árinu. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

HB Grandi hf. hefur selt Ísfiski hf. bolfiskvinnsluhús sitt að Bárugötu 8-10 á Akranesi. Söluverð hússins og hluta af vinnslulínu nemur 340 milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem HB Grandi hefur sent kauphöllinni.

Er þar einnig tekið fram að Ísfiskur muni hefja bolfiskvinnslu í húsinu á Akranesi í byrjun næsta árs.

200 mílur greindu í mars frá áformum HB Granda um að hætta bolfiskvinnslu á Akranesi og var 86 manns sagt upp störfum í maímánuði. Uppsagnirnar taka gildi á morgun.

„Þetta er gríðarlegt högg fyr­ir bæ­inn,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, þá í samtali við mbl.is. „Ég myndi áætla að þarna væru und­ir 150 störf ef tek­in eru með af­leiddu störf­in.“

Áður hafði Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, sagt að helsta ástæða breytinganna væri gengi krónunnar.

„[Á]stæðan fyr­ir því að við höf­um uppi þessi áform eru fyr­ir­sjá­an­leg­ir rekstr­ar­erfiðleik­ar í land­vinnslu,“ sagði Vilhjálmur í mars. „Helsta ástæðan fyr­ir þeim er sterkt gengi krón­unn­ar. Það er fyrst og fremst ástæðan. Kostnaður inn­an­lands hef­ur hækkað en fisk­verð ekki. Þannig að staðan og við eig­um þenn­an mögu­leika að vinna þenn­an bol­fisk sem við erum að veiða í einu húsi. Þannig að það er það sem við erum að skoða.“

mbl.is