„Mikill léttir“

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Við höfum stefnt að því að fá aðila til að bæði nýta húsið og fjölga atvinnutækifærum á Akranesi frá því að við tókum ákvörðun um að sameina bolfiskvinnsluna á Akranesi við vinnslu okkar í Reykjavík,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, en fyrirtækið hef­ur selt Ísfiski hf. bol­fisk­vinnslu­hús sitt að Báru­götu 8-10 á Akra­nesi.

Ísfiskur mun hefja bol­fisk­vinnslu í hús­inu á Akra­nesi í byrj­un næsta árs. Undanfarin ár hefur Ísfiskur verið með um 40 starfsmenn og unnið úr um 4.000 tonnum af ýsu og þorski sem fyrirtækið hefur keypt á markaði. Starfsemi fyrirtækisins hefur alla tíð verið í Kópavogi. 

Síðasti vinnsludagur í húsinu á vegum HB Granda er í dag og á morgun mun hluti starfsmanna hefja vinnu í fiskiðjuveri HB Granda í Reykjavík.

„Það er okkur mikill léttir að vita af því að húsnæðið verður áfram nýtt til vinnslu á fiski og að það skuli vera jafntraust og gott félag og Ísfiskur sem á í hlut,“ segir Vilhjálmur. 

mbl.is