Stór skref með nýrri Drangey

Drangey siglir inn Skagafjörðinn.
Drangey siglir inn Skagafjörðinn. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Mikill mannfjöldi fagnaði nýjum togara FISK Seafood, Drangey SK 2, þegar hann kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Sauðárkróki fyrir um þremur vikum.

„Smíði þessa skips er stórt skref í því að festa Skagafjörð í sessi sem eitt af öflugri útgerðar- og fiskvinnslusvæðum á landinu. Koma skipsins er því ekki bara mikilvægur atburður í sögu FISK heldur einnig samfélagins hér í Skagafirði,“ sagði Jón Edvald Friðriksson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í ávarpi sem hann flutti við komu skipsins.

Ein af fjórum

Ný Drangey er 62,5 metrar að lengd og breiddin er 13,5 metrar. Skipið er 2.081 brúttótonn og hefur 14 hnúta siglingahraða. Það er búið Yanmar-aðalvél og skilar hún 1.620 kW við 750 snúninga og getur bæði keyrt á svartolíu og gasolíu. Drangey SK-2 er einn af fjórum samskonar togurum sem smíðaðir eru í Tyrklandi, en hinir eru Kaldbakur, Björgúlfur og Björg sem allir eru í eigu Samherja og ÚA.

Fram kom í máli Jóns Edvalds við komu skipsins að árið 2012 hefði stjórn FISK ákveðið að leggja aukna áherslu á landvinnslu og draga á móti úr vægi vinnslu úti á sjó. Hafi ýmsu verið breytt í starfseminni vegna þess og farið í þróunarstarf, þar sem meðal annars varð til Iceprotein ehf. rannsóknar- og þróunarfyrirtæki í eigu FISK Seafood.

Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK Seafood.
Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK Seafood. mbl.is/Sigurður Bogi

Búnaður og lausnir þróaðar á Íslandi

Í júlímánuði 2014 var síðan skrifað undir samning við Cemre skipasmíðastöðina í Tyrklandi um smíði á Drangeynni nýju. Skipið er hannað af Bárði Hafsteinssyni skipaverkfræðingi hjá Skipatækni ehf. og stór hluti búnaðar og lausna þróaður af íslenskum tæknifyrirtækjum.

Þá hefur verið samið við Skagann 3X um smíði á búnaði á vinnsludekk skipsins. Sá byggir að mestu leyti á þeirri tækni sem þróaður var um borð í togaranum Málmey SK, sem er betrumbættur á ákveðnum sviðum

Mesta breytingin fyrir sjómennina er að gengið verður frá aflanum niður í kör á vinnsludekkinu og körin fara síðan fullfrágengin í lyftu niður í lestina, en þar tekur við hlaupaköttur, sem nýttur er til að raða þeim. Mikið var horft til orkunýtingar við hönnun skipsins og við val á öllum búnaði. Jafnframt var lögð rík áhersla á að hafa vinnuaðstöðu sem besta og ljóst að góð sjó- og veiðihæfni skipsins stuðlar að bættri meðferð hráefnis.

Allt sé fyrsta flokks

„Smíði á þessu nýja skipi er stórt skref í þeirri uppbyggingu sem framundan er hjá FISK. Forsenda þess að fyrirtækið geti áfram verið í fararbroddi hvað varðar gæði afurða er að það hráefni sem skilað er inn í vinnslu fyrirtækisins sé nánast gallalaust og ég bind miklar vonir við að svo megi verða,“ sagði Jón Eðvald.

Drangey SK-2 leysir af hólmi Klakk SK-5 sem er 40 ára gamalt skip. Áhöfn Klakks sem flyst yfir á nýtt skip er þekkt fyrir góða meðferð afla, segir framkvæmdastjórinn, sem telur að hún muni á þessu nýja og vel búna skipi ná enn betri árangri.

„Mikil tækni- og sjálfvirknivæðing er framundan í landvinnslu FISK en lykilatriði í þeirri þróun og í raun algjör forsenda er að það hráefni, sem kemur til vinnslu sé allt fyrsta flokks og ég trúi því að með smíði á þessu nýja skipi stígum við risaskref í þá átt.“

mbl.is