Þrengt að smábátum í Reykjavíkurhöfn

Smábátar í Reykjavíkurhöfn.
Smábátar í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Ómar

Smábátaeigendur í Reykjavík hafa áhyggjur af framtíð smábátaútgerðar í höfuðborginni. Stöðugt er verið að þrengja að aðstöðu þeirra í höfninni og er þar ferðaþjónustan fyrirferðarmest.

Þetta er meðal þess sem fram kom í ávarpi formanns Smábátafélags Reykjavíkur á aðalfundi félagsins á föstudaginn, að því er segir á vef Landssambands smábátaeigenda.

„Lagðist illa í félagsmenn“

Greint er frá því að Þorvaldur hafi hvatt félaga sína til að standa á rétti sínum varðandi hafnaraðstöðuna, sem verið hafi frá upphafi byggðar í Reykjavík.

Kynnt var bréf frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til sambandsins, þar sem óskað er umsagnar við beiðni stærri útgerða innan krókaaflamarkskerfisins um afnám veiðarfæratakmarkana hjá krókaaflamarksbátum.

„Skemmst er frá því að segja að krafan lagðist illa í félagsmenn sem lögðust gegn öllum slíkum hugmyndum. Kerfið væri skýrt afmarkað með heimild til notkunar þeirra veiðarfæra sem sköpuðu veiðiheimildir í því - línu og handfærum. Bent var á að þeir sem vildu fara á troll, dragnót eða net væri í lófa lagið að skipta um veiðikerfi, láta frá sér heimildir í krókakerfinu og hasla sér völl í aflamarkskerfinu,“ segir á vef LS.

Makrílveiðar verði gefnar frjálsar

Enn fremur voru samþykktar ályktanir um að veiðigjöld verði lækkuð, veiðigjöld af leigukvóta verði greidd af þeim sem eigi kvótann en ekki þeim sem leigi, makrílveiðar verði gefnar frjálsar hjá smábátum, þeir sem landi á fiskmarkaði fái afslátt af veiðigjöldum og að strandveiðar verði leyfðar fjóra daga í viku í fjóra mánuði á ári.

Að auki var hugmyndum um netaveiðar krókabáta og sameiningu kerfanna tveggja mótmælt

Þorvaldur Gunnlaugsson var endurkjörinn formaður Smábátafélags Reykjavíkur.  Auk Þorvaldar skipa stjórnina þeir Arthur Bogason, Guðmundur Jónsson, Jón Fr. Magnússon og Páll Kristjánsson.

mbl.is