Kominn er tími til að endurskoða ákvæði sem heimila aðeins notkun línu og handfæra við veiðar smábáta, að undanskildum hrognkelsaveiðum. Þetta var niðurstaða aðalfundar smábátaeigendafélagsins Kletts, sem fram fór á Akureyri á laugardag.
Var tillaga um rýmri heimildir á veiðarfæratakmörkunum krókaaflamarksbáta mikið rædd og kostum hennar og göllum velt upp áður en niðurstaðan varð þessi, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda.
Segir þar að tímabært hafi verið talið að rýmka umrædd ákvæði. Skoða eigi möguleikann á að heimila að einhverju leyti staðbundin veiðarfæri innan kerfisins, þ.e. net, hvort sem það yrði gert með sérveiðileyfum eða almennri breytingu á veiðikerfi krókaaflamarksbáta.
Slík ráðstöfun er meðal annars sögð myndu verða til að auka sveigjanleika og bæta afkomu smábátaútgerða til annarra veiða, t.d. með síldar-, skötusels-, grálúðu- og kolanetum.
Stjórn Kletts var endurkjörin á aðalfundinum en hana skipa þeir Þórður Birgisson, formaður, Andri Viðar Víglundsson, Einar Þorsteinn Pálsson, Jón Kristjánsson og Víðir Örn Jónsson.